Erlent

Ís­lenskur skóla­stjóri meðal þeirra sem flúðu skotárásina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi í Örebro í dag.
Frá vettvangi í Örebro í dag. AP/Kicki Nilsson

Svanfríður Birgisdóttir, einn af skólastjórum Campus Risbergska-skólans í Örebro í Svíþjóð, segir alla í áfalli eftir að skotárás var gerð á skólann um hádegisbil í dag. Tala látinna er ekki staðfest en lögregla hefur sagt að fimmtán hið minnsta hafi særst í árásinni.

Um er að ræða stærsta fullorðinsskóla bæjarins þar sem sjö þúsund eru í námi og tvö til þrjú þúsund sækja nám á degi hverjum.

„Við erum rosalega sjokkeruð öll. Maður trúir þessu eiginlega ekki,“ segir Svanfríður sem var meðal þeirra sem flúðu skólann þegar skotárásin hófst. Hún var stödd á krísufundi í ráðhúsinu með öðrum skólastjórum skólans þegar Vísir náði af henni tali.

„Ég á eiginlega engin orð. Þetta er óraunverulegt,“ segir Svanfríður og leggur áherslu á að margt sé enn á huldu. Til dæmis hvort árásarmaðurinn hafi verið einn eða fleiri. Á blaðamannafundi sænsku lögreglunnar eftir hádegið kom fram að lögregla hefði grun um að einn þeirra sem fannst særður kunni að vera árásarmaðurinn í málinu. Þá kom fram að lögregla í Örebro hefði ákveðið að rýma sex skóla og einn veitingastað í nágrenninu.

Fimm hafa verið fluttir á sjúkrahús vegna sára sinna og greindi lögregla að einhver hafi þegar gengist undir aðgerð. Lögregla vildi ekki tjá sig um þær upplýsingar sænskra fjölmiðla að svo stöddu að einhverjir hefðu látist í árásinni.

Svanfríður var meðal mikils fjölda fólks sem flúði úr húsi á meðan einhverjir læstu sig inni í skólastofum þegar skothvellirnir heyrðust. Hasarinn hafi verið mikill.

Blóðug föt og kroppar á gólfinu

„Þú getur ímyndað þér þegar þessi massi fer af stað þegar það er skotið. Það voru þyrlur, sjúkrabílar, lögreglubílar, öskrandi fólk, blóðug föt og kroppar á gólfinu,“ segir Svanfríður um ástandið.

Svanfríður segir skothvellina enn óma í höfðinu á sér.

„Þetta var bara skotárás, eins og í bíómynd,“ segir Svanfríður og lýsir ástandinu þegar árásin hófst. Þúsundir nemenda og kennara ýmist flúðu út úr húsi eða læstu sig inn í skólastofum og fylgdu þar til gerðum rýmingaráætlunum sem taka bæði til möguleikans að flýja úr húsi eða komast í skjól innanhúss.

„Það eru til rútínur og plön fyrir allt. Það eru tvör ár síðan við gerðum ofboðslega stóra æfingu með öllum. Það kunna þetta allir hérna núna.“

Ekkert lengur eins og þruma úr heiðskíru

Aðspurð hvort skotárásin hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti svarar hún fyrst játandi en hugsar sig svo um.

„Samt, það kemur ekkert eins og þruma úr heiðskíru lofti lengur.“

Vísar hún til endurtekinna sprenginga í Stokkhólmi í því samhengi. Þá segir hún skjót viðbrögð lögreglu til marks um að lögregla sé við öllu búin.

„Lögregla var rosalega fljót á staðinn. Ég hef aldrei á ævi minni séð neitt þessu líkt.“

Sænskir fjölmiðlar fullyrða að fleiri enn einn hafi látist í árásinni en sænska lögreglan hefur ekki viljað staðfesta fjölda látinna að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×