Aron Pálmarsson var einn af ljósu punktunum í leik íslenska liðsins á nýafstöðnu stórmóti. Aron spilaði af miklum krafti og yfir honum var ára leikmanns sem ætlaði sér að gefa allt sitt í verkefnið.
Þegar kemur að því hvað hafi mest lagt grunninn að þessari spilamennsku Arons segir Snorri Steinn að hann telji hugarfar Arons spila þar stærsta rullu.
„Ég held að hann hafi bara lagt á sig einhverja vinnu. Hann náttúrulega tekur þetta skref, að fara aftur út, sem ég held að hafi verið mjög jákvætt hvað íslenska landsliðið varðar. Að hann komist aftur inn í þetta atvinnumannaumhverfi og í þetta stóran klúbb. Það hjálpar mikið til. Hann er í góðu standi, hugsar um sig og ég hef alltaf skynjað að hann brennur fyrir íslenska landsliðið. Það er vel.
Engin spurning að hann var frábær, annað mótið í var hann kannski okkar hættulegasti sóknarmaður. Það er samt á vissan hátt áhyggjuefni líka. Að menn skuli ekki setja meiri pressu á hann. Það líður þarna ár á milli þar sem að hann er ekki með okkur og ég sem þjálfari myndi vilja sjá menn setja hann undir enn meiri pressu þannig að við værum ekki háðir honum. Ég er ekki að segja að við séum háðir honum en það er alveg hægt að færa rök fyrir því að án hans værum við í veseni.“