Innlent

Lands­virkjun leitar af gistingu á Suður­landi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Frá fundinum á Hellu þar sem fólk spurði fjölmargra spurninga vegna verkefnisins og fékk svör til baka.
Frá fundinum á Hellu þar sem fólk spurði fjölmargra spurninga vegna verkefnisins og fékk svör til baka. Aðsend

Landsvirkjun leitar nú logandi ljósi af gistingu fyrir starfsfólk sitt á Suðurlandi vegna mikilla framkvæmda á svæðinu næstu þrjú árin, ekki síst í kringum Búrfell og þar í kring.

Starfsmenn Landsvirkjunar voru með tvo fundi á Suðurlandi í vikunni þar sem fólki var boðið að koma á vegna gistiverkefnisins en fundirnir voru haldnir annars vegar í félagsheimilinu Árnesi í Skeiða og Gnúpverjahreppi og hins vegar á Hótel Stracta á Hellu.

Sigurgeir Björn Geirsson, yfirverkefnastjóri Búrfellslundar við Vaðöldu var á fundunum og veit allt um málið.

„Við höfum hingað til leyst þessa gistingu með því að vera með okkar eigin vinnubúðir og óskað eftir því að verktakar, sem eru að vinna fyrir okkur komi með búðir fyrir sitt starfsfólk en nú er umfangið bara meira og við sjáum tækifæri í því að leita til nærsamfélagsins eftir þjónustu, þar að segja að bjóða upp á gistingu í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir okkar á Þjórsár- og túnársvæðinu á næstu árum,“ segir Sigurgeir.

Sigurgeir segir að allir geti boðið gistingu, hvort sem það eru ferðaþjónustufyrirtæki, hótel eða bara í heimahúsum, allt væri skoðað með jákvæðum huga. Valkvætt er hvort boðið verður upp á morgunmat eða ekki.

„Við gerðum mikla og ríka kröfu um gistiaðstöðu fyrir starfsfólk, sem tekur þátt í verkefnunum okkar,“ segir Sigurgeir enn fremur.

Um er að ræða rammasamning um gistingu starfsmanna Landsvirkjunar á Suðurlandi næstu þrjú árin.Aðsend

Hann segir erfitt að segja hvað þurfi gistipláss fyrir marga starfsmenn en mjög líklega fyrir fleiri en 50 yfir lengri tíma.

En hvaða stóru framkvæmdir eru þetta á Suðurlandi helst, sem Landsvirkjun er að vinna í eða að fara að vinna í?

„Þá erum við að tala um Búrfellslund við Vaðöldu, við erum að tala um Hvamm, við erum að tala um Sigöldu, stækkun Sigöldu og svo gæti líka komið til gisting vegna ýmissa endurbótaverka fram undan,“ segir Sigurgeir Björn.

Sigurgeir Björn Geirsson, yfirverkefnastjóri Búrfellslundar við Vaðöldu hjá Landsvirkjun, sem var meðal annars á fundunum í Árnesi og á Hellu.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×