„Það snjóaði heldur meira en spár gerðu ráð fyrir. Mokstur í húsagötum hófst á sunnudag en það þarf örugglega að fara aftur yfir þær götur vegna þess sem hefur komið úr þessari úrkomu. Ég gæti trúað að það sé tregfært núna. Það safnast í gatnamót og getur verið áskorun á stöku stað,“ segir Eiður.
Hann segir göngustígana geta verið áskorun sömuleiðis þegar það komi svona mikil úrkoma á svona stuttum tíma. Það þurfi að byrja á vegunum og þá nái þeir ekki alveg að halda plani. Hann telur að miðað við plan sé um tveggja tíma seinkun.
„Það er ekkert stórvægilegt.“

Í borgarvefsjá er hægt að fylgjast með snjómokstri. Þar smá sjá að ekki hefur mokað í til dæmis í hverfi 108 morgun eða nótt. Eiður segir að þær götur sem eru eftir verði kláraðar og svo verði farið aftur í þær húsagötur sem var mokað í á sunnudag.
Hlýindi í lok vikunnar
Hann segir að við lok vikunnar sé útlit fyrir hlýindi.
„Þá er ég að vona að það taki upp, sérstaklega í þeim götum sem eru í þjónustu sem er eitthvað búið að vera að moka, það ætti að verða svart en hrúgur og ruðningar standa eitthvað lengur, miðað við hvernig spáin er.“
Snjó hefur kyngt niður á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga. Veðurfræðingur Veðurstofu sagði í samtali við fréttastofu í gær að magnið væri þó ekki óeðlilegt miðað við árstíma.