Það stefndi í markalausan fyrri hálfleik þegar boltinn féll til Randal Kolo Muani, sem gekk nýverið í raðir Juventus á láni frá París Saint-Germian. Framherjinn sneri á punktinum og náði fínu skoti í fyrsta sem hafnaði í netinu. Staðan 0-1 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.
Conte hefur messað yfir sínum mönnum í hálfleik því Frank Anguissa var búinn að jafna metin á 57. mínútu eftir sendingu Matteo Politano. Þegar rúmar tuttugu mínútur lifðu leiks fékk Napoli vítaspyrnu þegar Manuel Locatelli gerðist brotlegur innan eigin vítateigs.
Romelu Lukaku fór á punktinn og sendi boltann niðri í hornið vinstra megin. Staðan orðin 2-1 og reyndust það lokatölur kvöldsins.
Napoli er á toppi deildarinnar með 53 stig að loknum 22 leikjum. Inter er í 2. sæti með 47 stig en á þó tvo leiki til góða. Juventus er í 5. sæti með 37 stig.