Neytendur

Fólk eigi ekki að greiða fyrir að nota peninginn sinn

Lovísa Arnardóttir skrifar
Bjarni Gaukur segir Blikk ekki vera að finna upp hjólið. Álíka greiðslumiðlanir sé að finna víða erlendis, til dæmis í Hollandi, Póllandi og á Norðurlöndunum.
Bjarni Gaukur segir Blikk ekki vera að finna upp hjólið. Álíka greiðslumiðlanir sé að finna víða erlendis, til dæmis í Hollandi, Póllandi og á Norðurlöndunum. Vísir/RAX

Blikk er ný greiðslumiðlun sem starfrækt er á Íslandi. Framkvæmdastjóri segir greiðslumiðlunina uppfylla þau skilyrði sem þarf til að tryggja þjóðaröryggi en töluvert hefur undanfarið verið fjallað um hættuna sem stafar af því að greiðslumiðlun sé erlend á Íslandi. Í því samhengi hefur einnig verið talað um kostnað en áætlað er að það kosti Íslendinga um 54 milljarða árlega að vera bara með erlenda greiðslumiðlun.

„Blikk er ný alíslensk greiðsluþjónusta sem byggir alfarið á millifærslum þar sem greiðsla fyrir vöru eða þjónustu fer beint af bankareikningi kaupanda á bankareikning seljanda í einum vettvangi og án allra milliliða,“ segir Bjarni Gaukur Sigurðsson framkvæmdastjóri Blikk.

„Þetta er því hraðasta, öruggasta og ódýrasta greiðslumiðlun eða þjónusta sem völ er á Íslandi í dag.“

Hann segir greiðslumiðlunina þannig fara fram hjá hefðbundnum kortainnviðum kreditkortafyrirtækjanna og allra annarra milliliða.

„Þetta er lausn sem hægt er að hýsa hvar sem er. Hvort sem það er innanlands eða utanlands eða bland af báðu. Þannig hún uppfyllir þessar kröfur um óhæfi Íslands gagnvart nettengingu við umheiminn og myndi því virka ef svo illa færi að það myndi rofna netsamband Íslands við útlönd.“

Töluvert hefur verið rætt um þetta undanfarið í tengslum við þjóðaröryggi Íslendinga ef sæstrengir myndu slitna.

„Þetta snýst náttúrulega um það að við yrðum á köldum klaka, í orðsins fyllstu, ef nettengingar rofna.“

Sambærilegt og að greiða með korti í síma

Bjarni segir Blikk virka mjög sambærilega við að borga með korti í veski símans.

„Ef maður velur að greiða með Blikk þá sendir afgreiðslukerfið greiðslubeiðni sem það parar sig svo við með því að leggja upp að segulmerki eins og er í kortaposum.“

Einnig er hægt að senda beina beiðni á símanúmer eða kennitölu eða nota QR-kóða.

„Þetta er alltaf greiðslubeiðni sem er send í rauntíma og greiðandinn parar sig bara við hana rétt eins og hún gerir þegar maður greiðir með korti.“

Bjarni segir að greiðandinn sé í raun tekinn inn í app banka síns þar sem færslan er svo sannvottuð.

„Þannig Blikk snertir aldrei fjármagnið heldur er það viðskiptabanki greiðanda sem sér um millifærsluna eins og hann gerir með hefðbundnar millifærslur í banka eða appi.“

Til að nota Blikk þarf síma, smáforritið í símann og að tengja smáforritið við ákveðinn bankareikning sem Blikk dregur af. Kaupandi þarf ekkert að vita um bankaupplýsingar viðtakanda eða neitt slíkt til að greiða með Blikk.

Forskilyrði að miðlunin gæti verið hýst hvar sem er

Bjarni segir starfsemina eftirlitsskylda og því séu þau í reglulegum samskiptum við stjórnvöld út frá eftirlitsskyldunni. Á sama tíma hafi Seðlabankinn og greiðsluveitan auglýst eftir aðilum sem hafi burði og lausnir til að mæta þessari þörf sem tengist þjóðaröryggi.

„Og við höfum að sjálfsögðu verið í þeim samtölum, enda sá aðili sem er lengst kominn með þessa lausn. Ekki bara langt kominn, hún er til og í notkun.“

Bjarni segir þetta ekki fyrstu ástæðu þess að Blikk var stofnað en hönnuðir hafi haft þetta í huga og að það hafi verið forskilyrði að miðlunin gæti verið hýst þar sem þeir kjósa. Fyrsta ástæðan fyrir stofnun Blikk hafi þó verið gífurlegur kostnaður við smágreiðslumiðlun á Íslandi sem sé töluvert hærri en í samanburðarlöndum eins og Norðurlöndunum.

Skjáskot úr Blikk smáforritinu.Blikk

Bjarni segir þær kortalausnir sem við styðjumst við í dag ekki endilega byggðar upp fyrir það samfélag sem við búum í sem er sítengt og tæknivætt þar sem flestir eru sem síma í hönd sem er öflug tölva.

„Þessi fjöldi milliliða sem koma að greiðslunni þýðir að kostnaðurinn er hærri, öryggið minna og gagnsæið sömuleiðis. Þessi boðleið milli kaupanda og seljanda er óþarflega löng. Greiðslan berst ekki fyrr en að minnsta kosti degi seinna.“

33 krónur fyrir hverja færslu

Þannig fari greiðslan jafnvel úr landi og það séu lánveitendur inni í kerfinu. Allt kosti þetta en Bjarni bendir á að til dæmis hafi komið út nýtt rit frá Seðlabankanum í vikunni þar sem sérstaklega er fjallað um þetta. Beinn kostnaður fyrir neytanda að greiða með debetkorti sé 17 krónur fyrir debetkort og 54 krónur fyrir kreditkort, að meðaltali 33 krónur. Ofan á þetta bætist svo kostnaður söluaðila sem sé enn hærri.

„Við erum að tala um að þessi greiðslumiðlun kosti um 54 milljarða á ári,“ segir Bjarni og til að segja það í samhengi slagi það upp í allt það fjármagn sem hið opinbera leggur í háskólastarf á ári hverju.

Bjarni segir Blikk ekki vera að finna upp hjólið. Svona greiðslumiðlanir sé að finna víða erlendis og þær hafi yfirleitt reynst afar vel. Í Hollandi fari sem dæmi 70 prósent af allri veltu í gegnum netverslanir í gegnum slíka greiðslumiðlun. Þá sé einnig að finna slíkar lausnir í Póllandi, Norðurlöndunum og í Sviss.

„Þetta er langhraðast vaxandi greiðslutegund á heimsvísu og það er áætlað að hún muni halda áfram að vaxa og að endingu verða á pari við kortagreiðslur. Ég myndi segja að það væri mikið gleðiefni að svona lausn sé valkostur á Íslandi. Við höfum yfirleitt verið framarlega í tækniframförum en við höfum ekki verið framarlega þarna. Okkur finnst löngu tímabært að svona valkostur sé í boði fyrir neytendur.“

Bjarni segir auk þess mikinn ávinning fyrir neytandann að greiða með þessum hætti því hann greiði ekkert fyrir það.

„Enda á hann ekki að greiða neitt fyrir að nota peninginn sinn.“


Tengdar fréttir

„Ætla ekki að ljúga því að ég sé einhver ofurhress morguntýpa“

Bjarni Gaukur Sigurðsson framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Blikk er greinilega ólíkindartól sem fer sínar eigin leiðir. Því Bjarni segir að ef hann væri ofurhetja í teiknimynd, væri hann án efa Svarta kvikindið. Bjarni segir það ákveðna áskorun að fylgja ekki eftir óskrifuðum reglum samfélagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×