Í greinargerð saksóknara segir að maðurinn sé sterklega grunaður um að ráðast á konuna með járnkarli, reynt að stinga hana í kviðinn og reynt að kyrkja hana með járnkarlinum í október á síðasta ári.
Haft er eftir vitni að maðurinn hafi farið af vettvangi og það hafi komið að konunni liggjandi á gólfinu. Hún hafi sagt manninn hafa ætlað að drepa sig. Maðurinn var handtekinn í kjölfarið en hann viðurkenndi á vettvangi að hafa ráðist á konuna. Þá hafi hann sagt að málið væri alvarlegt.
Í greinargerðinni er ítarlegum áverkum konunnar lýst ítarlega. Þar kemur meðal annars fram að útlit áverkanna samræmist lýsingum konunnar um að hann hafi reynt að kyrkja hana með teininum.
Brotaþoli málsins, Hafdís Bára Óskarsdóttir, steig fram og tjáði sig um málið í Kastljósi í desember. Þar greindi hún frá tveimur árásum af hálfu mannsins. Sú fyrri mun hafa átt sér stað þann 13. október síðastliðinn og í kjölfarið hafi verið óskað eftir nálgunarbann á hendur manninum, en því hafnað. Þremur dögum seinna hafi hann ráðist á hana með járnkarlinum.
„Hann nær að hrinda mér í gólfið og sest ofan á mig og setur járnkarlinn yfir hálsinn á mér og þrýstir bara,“ sagði Hafdís Bára í viðtalinu.
„Ég man að ég segi við hann, þú veist þú ert að drepa mig. Þá sagði hann svo blákalt; já ég ætla að drepa þig.“
Áfram í gæsluvarðhaldi
Maðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald þangað til í febrúar. Hann fór fram á að þeim úrskurði yrði breytt þannig að hann yrði frekar vistaður á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun í stað þess að sæta gæsluvarðhaldi.
Landsréttur staðfesti hins vegar niðurstöðu héraðsdóms um að hann skyldi sæta gæsluvarðhaldi þar sem fram hafði komið að fylgst væri með heilsufari hans af heilbrigðisstarfsfólki á meðan hann sætti varðhaldi.