Handbolti

„Kom maður í manns stað“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ýmir Örn fór mikinn.
Ýmir Örn fór mikinn. Vísir/Vilhelm

„Ég er ógeðslega leiður,“ sagði stríðsmaðurinn Ýmir Örn Gíslason skælbrosandi þegar hann mætti í viðtal eftir magnaðan sigur Íslands á Slóveníu á HM í handbolta. Sigurinn þýðir að Ísland fer með fullt hús stiga í milliriðil.

„Frábær, ótrúlega glaðir með sigurinn og að fara með öll stigin inn í milliriðil,“ sagði Ýmir Örn ögn alvarlegri um fyrstu tilfinningar eftir leik.

„Í fyrsta lagi erum við góðir í vörn og í öðru lagi vorum við vel undirbúnir fyrir leikinn. Þegar við náum að stilla okkur svona vel saman, vörn og markvarsla, þá myndast þessi geðveiki,“ sagði línumaðurinn um leik kvöldsins en Slóvenía skoraði aðeins 18 mörk í leiknum.

Þá munaði um minna að hafa Viktor Gísla Hallgrímsson í markinu.

„Hann var í ham þegar við klikkuðum í vörninni. Alltaf gott að hafa þannig mann í markinu. Hann er skítsæmilegur,“ sagði Ýmir Örn um samherja sinn áður en hann kom á framfæri að hann væri nú aðeins að grínast og Viktor Gísli væri almennt frábær, þá sérstaklega í dag.

Íslenska liðið fékk nokkuð af tveggja mínútna brottvísunum en það kom ekki að sök.

„Það fylgir þessu. Vorum búnir að segja að við yrðum harðir allan tímann. Fengum svolítið af tveimur mínútum fyrir það en það skipti engu máli, kom maður í manns stað og við gerðum það sama. Ef við höldum þessum ferskleika er helvíti leiðinlegt að spila á móti okkur.“

„Vorum tilbúnir að leggja það inn í þennan leik til að fá þessi aukastig með okkur inn í milliriðilinn,“ sagði Ýmir Örn Gíslason að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×