Erlent

Inn­setningar­at­höfnin verður innan­dyra í fyrsta sinn í fjöru­tíu ár

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Um 250.000 manns sem áttu miða á innsetningarathöfnina sitja nú eftir með sárt ennið.
Um 250.000 manns sem áttu miða á innsetningarathöfnina sitja nú eftir með sárt ennið. AP

Innsetningarathöfn Donalds Trump næstkomandi mánudag verður haldin innandyra í hringhvelfingu þinghússins í Washington vegna slæmrar veðurspár. Fjörutíu ár eru síðan athöfnin var síðast haldin innandyra þegar Ronald Reagan var svarinn í embættið 1985, þá einnig vegna veðurs.

Trump greindi frá þessu á samfélagsmiðli sínum Truth Social. Þar segir hann að vegna kuldakasts í kortunum þurfi að huga að öryggi fólks, og athöfnin verði því færð inn.

„Mín skylda er að vernda fólkið í landinu, en áður en við hefjumst handa þurfum við að huga að sjálfri innsetningarathöfninni. Samkvæmt veðurspánni gæti kuldinn mælst í sögulegum lægðum með tilliti til vinda og hitaspár ... ég vil ekki sjá fólk slasast á neinn hátt ... sumir myndu þurfa standa úti í allt að 20 klukkustundir,“ sagði Trump í færslu sinni.

Bein útsending frá íþróttaleikvangi

Trump segir að bein útsending verði frá innsetningarathöfninni frá íþróttahöllinni Capital One Arena, og þangað muni hann fara eftir athöfnina.

Þá standi til að aðrir viðburðir dagsins fari ekki úr skorðum, sigurgangan og böllin um kvöldið.

„Allir verða öruggir, allir verða glaðir og við munum, saman, gera Bandaríkin góð á ný,“ sagði Trump.

Sex stiga frost og vindhviður

Ískalt heimskautaloft gengur yfir Kanada og spár gera ráð fyrir að loftið nái norðurhluta Bandaríkjanna snemma á laugardaginn með tilheyrandi frosti.

Spáð er allt að sex gráðu frosti í Washington á mánudaginn næstkomandi, sem yrði kaldasti dagur forsetainnsetningar síðan Reagan var svarinn í embætti árið 1985, en þá náði frostið 13 gráðum þegar verst lét.

Þá gera spár ráð fyrir að vindhraði verði um 10 m/s með hviðum allt að 14 m/s.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×