Viðskipti erlent

Höfða mál gegn Musk vegna kaupanna á Twitter

Samúel Karl Ólason skrifar
Elon Musk, auðugasti maður heims, er sakaður um að hafa dregið fæturna í að láta vita af umfangsmiklum kaupum sínum á hlutabréfum í Twitter og sparað sér þannig að minnsta kosti 150 milljónir dala.
Elon Musk, auðugasti maður heims, er sakaður um að hafa dregið fæturna í að láta vita af umfangsmiklum kaupum sínum á hlutabréfum í Twitter og sparað sér þannig að minnsta kosti 150 milljónir dala. AP/Alex Brandon

Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna hefur höfðað mál gegn auðjöfrinum Elon Musk. Hann er sakaður um að hafa ekki sagt frá hlutabréfaeign sinni í Twitter í aðdraganda kaupa hans á samfélagsmiðlinum en þannig mun hann hafa greitt að minnsta kosti 150 milljónum dala minna en annars.

Musk keypti Twitter í október 2022 en seinna breytti hann svo nafni samfélagsmiðilsins í X.

Hann byrjaði að sanka að sér hlutabréfum snemma árs 2022 og í mars það ár átti hann rúmlega fimm prósent í fyrirtækinu. Samkvæmt lögum hefði hann þá átt að gera grein fyrir eign sinni opinberlega.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar eru Musk sakaður um að hafa gert það ellefu dögum of seint.

Eftirlitið segir að í millitíðinni hafi eigendur hlutabréfa selt bréf sín til Musk á lægra verði en ef ætlanir hans hefðu verið opinberar, eins og þær áttu að vera. Eins og áður segir áætla starfsmenn Verðbréfaeftirlitsins að Musk hafi sparað sér að minnsta kosti 150 milljónir dala með að opinbera ekki stærri eignarhlut sinn.

Reglunum sem Musk er sakaður um að hafa brotið er ætlað að tryggja að eigendur hlutabréfa geti verið meðvitaðir um það þegar stórir hluthafar ætla að auka umsvif sín eða stefna á yfirtöku.

Tafði málaferlin

Í frétt Wall Street Journal segir að Musk hafi á undanförnum mánuðum tafið málaferli eftirlitsins með því að mæta ekki í vitnisburð. Hann lýsti því yfir í september 2023 að hann væri hættur að vinna með eftirlitinu við rannsóknina.

Þá segir WSJ að búist sé við því að auðjöfurinn, sem er bundinn Donald Trump, verðandi forseta, nánum böndum muni biðja næsta leiðtoga Verðbréfaeftirlitsins um að fella málið niður.

Slík beiðni gæti reynt verulega á sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart Hvíta húsinu en Trump hefur valið lögmanninn og Repúblikanann Paul Atkins til að stýra eftirlitinu en sá hefur verið gagnrýninn á starfsemi þess.

Lögmaður Musks segir að lögsóknin sýni fram á að eftirlitið hafi ekkert raunverulegt mál á höndum. Lögsóknin sé uppgerð og að Musk hafi ekkert rangt gert. Það eina sem hann sé sakaður um sé að fylla ekki út eitt eyðublað og þetta meinta brot feli í sér litla refsingu.

Í samtali við WSJ segir fyrrverandi yfirmaður innan Verðbréfaeftirlitsins að líklega sé markmiðið með lögsókninni að koma í veg fyrir að aðrir opinberi ekki sambærileg viðskipti. Ef Musk kæmist upp með að brjóta reglurnar þegar kaupin hans hefðu verið á forsíðum allra fjölmiðla, sæju aðrir ekki tilefni til að fara eftir reglunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×