Í Instagram færslu þakkar Katrín starfsfólki konunglega Marsden sjúkrahússins fyrir að hlúa að henni í veikindum hennar undanfarið ár. Hún lauk lyfjameðferð við krabbameininu í september.
Katrín deildi myndum úr opinberri heimsókn sinni á sjúkrahúsið í dag samhliða færslunni. Á myndunum sést hún ræða við sjúklinga og starfsfólk sjúkrahússins.
„Sem velunnari konunglega Marsden sjúkrahússins vona ég að með tímamótarannsóknum og vísindum og með velferð sjúklinga í fyrirrúmi getum við bjargað fleiri lífum og umbreytt upplifun þeirra sem glíma við krabbamein,“ segir Katrín í færslunni.
Hún segir mikinn létti að vera á batavegi og nú einbeiti hún sér að því að halda sér heilsuhraustri. „Eftir að hafa gengið í gegn um krabbameinsgreiningu veit ég að það tekur tíma að aðlagast nýjum veruleika. Ég lít þó björtum augum til komandi árs.“