Enski boltinn

Maguire tvisvar tekinn fyrir hrað­akstur á þremur dögum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Maguire hefur verið úrskurðaður í 56 daga akstursbann.
Harry Maguire hefur verið úrskurðaður í 56 daga akstursbann. getty/Carl Recine

Harry Maguire, leikmaður Manchester United, þarf að fá far á æfingar næstu vikurnar því hann hefur verið settur í akstursbann eftir að hann var tvívegis tekinn fyrir hraðakstur á aðeins þremur dögum.

Maguire var gómaður fyrir hraðaksturinn í mars í fyrra, fyrst nálægt flugvellinum í Manchester og svo nálægt heimaborg sinni, Sheffield. Í fyrra skiptið keyrði hann á 137 kílómetra hraða þar sem hámarkshraðinn er áttatíu kílómetrar á klukkustund.

United-maðurinn hefur nú fengið 56 daga akstursbann og þarf að greiða sekt fyrir hraðaksturinn. Alls nema sektin og málskostnaðurinn 1.052 pundum, eða rúmlega 183 þúsund íslenskra króna.

Maguire skrifaði undir nýjan eins árs samning við United í síðustu viku og lék allan leikinn þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Alls hefur hinn 31 árs Maguire leikið 223 leiki fyrir United síðan félagið keypti hann frá Leicester City 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×