Innlent

Bjarni gefur ekki kost á sér og af­salar sér þing­sæti

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bjarni Benediktsson ætlar að láta gott heita, eftir 22 ár á þingi. 
Bjarni Benediktsson ætlar að láta gott heita, eftir 22 ár á þingi.  Vísir/Vilhelm

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar ekki að gefa kost á sér í formannskjöri á komandi landsfundi flokksins. Hann ætlar ekki að taka sæti á þingi síðar í mánuðinum.

Frá þessu greinir Bjarni á Facebook.

„Ég hef fengið mörg tækifæri á sviði stjórnmálanna en aldrei tekið því sem sjálfsögðum hlut að endurnýja umboð mitt, síðast í kosningunum í nóvember, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk áfram flest atkvæði í kjördæmi mínu. Ekkert hefur þroskað mig meira og mótað í lífinu en að fá að glíma við öll þessi flóknu úrlausnarefni sem þingmaður og ráðherra, eiga samtal við kjósendur og standa þeim reikningsskil af verkum okkar,“ skrifar Bjarni. 

Bjarni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2022, þar sem hann stóð af sér mótframboð frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni.Vísir/Vilhelm

Á tímamótum sem nú standi yfir hafi hann ákveðið að sækjast ekki eftir endurnýjuðu umboði til að leiða flokkinn. Kosningarnar hafi engu að síður skilað Sjálfstæðisflokknum næst flestum þingmönnum á Alþingi, og flokkurinn verið rúmu prósentustigi minni en stærsti flokkurinn, sem er Samfylkingin.

Jón Gunnarsson dettur inn

Bjarni segir mikil tækifæri nú opnast fyrir flokkinn í stjórnarandstöðu, til að styrkja samband sitt við almenna kjósendur og skerpa á forgangsmálum. Á komandi landsfundi, sem fyrirhugaður er í febrúar, verði ný forysta kjörin. Hún fái það hlutverk að móta áherslur kjörtímabilsins og vinna að góðum sigri í næstu kosningum. Bjarni finni hjá sér að það sé rétt ákvörðun að eftirláta öðrum að móta það starf.

„Ég hef verið þingmaður í Suðvesturkjördæmi frá árinu 2003 og tók fyrst sæti á þinginu 33 ára gamall. Síðar í mánuðinum verð ég 55 ára. Þetta hefur verið lengri þingseta en ég hefði nokkurn tímann getað ímyndað mér og mikill heiður að hafa notið slíks trausts.“

Undanfarna daga hafi hann litið yfir farinn veg með sínum nánustu, rætt og hugsað um framtíðina. Nú sé rétti tíminn til að breyta til. Það sé ekkert launungarmál að hann muni njóta þess að eiga meiri tíma með sístækkandi fjölskyldu, og til að sinna öðrum hugðarefnum.

„Í ljósi þessara aðstæðna hef ég ákveðið að taka ekki sæti á því þingi sem hefst síðar í mánuðinum. Næstu vikur ætla ég að taka mér frí en hyggst svo taka mín síðustu skref á pólitíska sviðinu og kveðja vini mína í Sjálfstæðisflokknum á landsfundinum sem framundan er, þar sem blásið verður til sóknar fyrir þjóðlífið allt,“ skrifar Bjarni.

Þetta gerir það að verkum að Jón Gunnarsson, sem var í fimmta sæti á lista Sjálfstæðismanna í suðvesturkjördæmi, færist upp í það fjórða og þar með inn á þing.

Gengur sáttur frá borði

Í færslunni segir Bjarni að það hafi verið forréttindi og heiður að leiða flokkinn frá árinu 2009. Hann skilji sáttur við verk sín, þakklátur fyrir stuðninginn og stoltur af sínum störfum sem þingmaður í tæplega 22 ár. 

„Á mínum fyrstu árum í forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn var staðan í þjóðlífinu erfið. Mikið uppgjör var framundan og þörf fyrir endurreisn á sviði efnahagsmála. Við Íslendingar fengumst við einhverja mestu efnahagskrísu lýðveldistímans og mikil átök voru í þinginu um pólitíska stefnumörkun. Allt var undir fyrir Ísland á þessum örlagaríku tímum og ég lagði allt mitt af mörkum fyrir landið okkar ásamt samherjum í flokknum, og hef gert það alla tíð síðan,“ skrifar Bjarni. 

Bjarni var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem mynduð var árið 2013. Hér er hann ásamt Sigmundi og Eygló Harðardóttur, þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, árið 2015.vísir/gva

Hann segir að árangurinn sem náðst hefði frá því flokkurinn tók sæti í ríkisstjórn árið 2013 hafa farið fram úr hans björtustu vonum. Íslenskt þjóðfeálg sé gott, og hafi staðið af sér storma og áföll. Lífskjör vaxið og segja megi að hvergi sé betra að búa en á Íslandi. 

Grunnurinn að þessum árangri felst í trú á fólkið í landinu, tækifærum þess til að láta til sín taka og stefnu um að skapa megi mikil verðmæti fyrir landsmenn alla ef ríkið styður við samfélagið með réttum hætti og einkaframtakið fær að njóta sín. Þessar áherslur ruddu brautina að miklu vaxtarskeiði, landsmönnum hefur fjölgað, mikil ný útflutningsverðmæti orðið til og grunnur að sterkara velferðarkerfi var lagður. Þetta er sjálfstæðisstefnan í hnotskurn.“

„Ekkert hefur þroskað mig meira“

Bjarni kveðst hafa fengið fjölda tækifæra á sviði stjórnmálanna, en aldrei tekið því sem sjálfsögðum hlut að endurnýja umboð sitt. 

„Ekkert hefur þroskað mig meira og mótað í lífinu en að fá að glíma við öll þessi flóknu úrlausnarefni sem þingmaður og ráðherra, eiga samtal við kjósendur og standa þeim reikningsskil af verkum okkar.“

Í niðurlagi færslu sinnar segir Bjarni það ekki ætlun sína að gera upp allan stjórnmálaferilinn þar. Það muni hann mögulega gera síðar. 

„En ég vil nota tækifærið og þakka öllu samferðarfólki mínu í fjölbreyttum hlutverkum, flokksfólki, þingmönnum úr ólíkum flokkum, ráðherrum, sveitarstjórnarfólki, starfsfólki á Alþingi og í stjórnarráðinu, embættismönnum og síðast en ekki síst þér, hinum almenna kjósanda, þakka ég öll samskiptin – saman höfum við unnið að því að gera gott samfélag enn betra.

Mínar bestu óskir til ykkar allra um farsælt nýtt ár.

Virðingarfyllst,

Bjarni Benediktsson.“

Bjarni mun ekki veita fjölmiðlum viðtöl vegna ákvörðunarinnar í dag. Þetta hefur fréttastofa fengið staðfest frá aðstoðarmanni hans. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×