Innlent

Flugeldasala Lands­bjargar hafin

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Flugeldasala í Lágmúla.
Flugeldasala í Lágmúla. vísir/vilhelm

Flugeldasala björgunarsveita Landsbjargar hófst á hundrað stöðum í morgun. Lítil breyting er í sölutölum milli ára.

„Þetta er mjög áþekkt og undanfarin ár. Við erum með um hundrað sölustaði um allt land og nánast allar sveitir sem taka þátt í því enda ein af þeirra mikilvægustu fjáröflunum,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

„Það er ljóst að þetta er lykilfjármögnun ásamt sölu á neyðarkalli og bakvörðum fyrir sveitir félagsins. Þetta er það sem stendur undir rekstrinum. Þetta stendur undir því að við getum verið með 93 björgunarsveitir hringinn í kringum landið tilbúnar þegar kallið kemur því það kostar að vera tilbúinn. Útkallið sjálft er ekki dýrt en það er dýrt að vera tilbúinn.“

Tertupakkinn vinsæll

Hann merkir ekki mikla breytingu í sölutölum milli ára.

„Landsmenn hafa verið viljugir að koma og styrkja sveitirnar með kaupum á flugeldum og kveðja gamla árið með flugeldasýningu. Samsetningin á því sem fólk kaupir hefur breyst og það er kannski bara eðlilegt. Við höfum mætt því með því að setja saman dálítið fjölbreyttari pakka en verið hefur, til dæmis núna tertupakkann sem hefur verið í svolítinn tíma. Hann er mjög vinsæll.“

Lítið um verðhækkanir

Hvernig er með verðið á þessu, hafa verið miklar hækkanir í ljósi þess að nú hefur margt hækkað í verði? 

„Það hefur margt hækkað en ekki flugeldar. Við höfum reynt að stilla því mjög í hóf. Við neyddumst til að taka inn smávægilega hækkun og það var meira vegna hækkunar á flutningskostnaði frá Asíu. Að meðaltali er þetta rétt um fjögur prósent sem vörurnar eru að hækka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×