Sport

„Besti í­þrótta­maður Ís­lands gleymdist“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Thelma Aðalsteinsdóttir með ein af fjórum gullverðlaunum sem hún vann á Norður-Evrópumótinu í Írlandi.
Thelma Aðalsteinsdóttir með ein af fjórum gullverðlaunum sem hún vann á Norður-Evrópumótinu í Írlandi. Stephen McCarthy/Sportsfile via Getty Images

Fimleikakonan Thelma Aðalsteinsdóttir var ekki tilnefnd sem íþróttamaður ársins þrátt fyrir frábæran árangur á árinu. Sigmundi Steinarssyni, íþróttafréttamanni til fjölda ára, var mjög brugðið og veltir því fyrir sér eftir hverju farið er þegar afrek íþróttamanna eru metin.

Thelma var kjörin fimleikakona ársins hjá Fimleikasambandi Íslands á dögunum. Hún vann til gullverðlauna í öllum fjórum greinunum sem keppt var í á Norður-Evrópumótinu, varð sú fyrsta til að gera nýja æfingu á stórmóti þegar hún sópaði til sín þremur titlum á Íslandsmótinu, auk þess að verða bikarmeistari með félagi sínu Gerplu og Norðurlandameistari með íslenska landsliðinu.

„Eftir hverju er farið, þegar afrek íþróttamanna eru metin?“ skrifar Sigmundur Steinarsson á Facebook síðu sinni. Hann býr yfir áratuga reynslu sem íþróttafréttamaður og hefur skrifað fjölda bóka um íþróttir.

Sigmundur er einn reyndasti íþróttafréttamaður landsins eftir marga áratugi í starfi. Hann er höfundur 100 ára sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu og fleiri bóka um íþróttir. vísir / ernir

„Ég tel það „ótrúlegt afrek“ að hægt sé að gleyma bestu íþróttakonu/manni landsins undanfarin ár, þegar valinn er Íþróttamaður ársins 2024. Thelmu er sárt saknað á listanum yfir 10 bestu íþróttamenn Íslands. Fyrirgefðu Thelma!“ skrifaði hann einnig.

Thelma var ekki í hópi þeirra sex kvenna sem tilnefndar voru sem Íþróttamaður ársins. Hún var ein af fimm sem var tilnefnd í fyrra en ekki núna. Kvennalandslið Íslands í hópfimleikum, sem Thelma er hluti af, var eitt af þremur liðum sem voru tilnefnd íþróttalið ársins 2024. Meira má finna um tilnefningarnar hér fyrir neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×