Fótbolti

Bein út­sending: Hvert fara Víkingar í umspilinu?

Sindri Sverrisson skrifar
Víkingar unnu tvo sigra, gerðu tvö jafntefli og töpuðu tveimur leikjum í Sambandsdeildinni. Það skilaði þeim 19. sæti og áfram í umspil um sæti í 16-liða úrslitum.
Víkingar unnu tvo sigra, gerðu tvö jafntefli og töpuðu tveimur leikjum í Sambandsdeildinni. Það skilaði þeim 19. sæti og áfram í umspil um sæti í 16-liða úrslitum. vísir/Anton

Það skýrist í dag hverjir verða mótherjar Víkings í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu. Drátturinn verður í beinni útsendingu hér á Vísi, klukkan 12.

Víkingar enduðu í 19. sæti af 36 liðum Sambandsdeildarinnar en liðin í 9.-24. sæti eru með í drættinum í dag. Efstu átta liðin komust beint áfram í 16-liða úrslit og liðin í 25.-36. sæti eru fallin úr keppni.

Víkingar geta dregist gegn annað hvort Olimpija Ljubljana frá Slóveníu eða Panathinaikos frá Grikklandi, liði Sverris Inga Ingasonar og Harðar Björgvins Magnússonar. Liðin raðast nefnilega í styrkleikaflokka eftir lokastöðu sinni í deildinni, og geta þannig liðin sem enduðu í 9.-10. sæti aðeins mætt liðunum sem enduðu í 23.-24. sæti.

Bein útsending frá drættinum hefst klukkan 12 í spilaranum hér að neðan.

Víkingar spila heimaleik sinn í umspilinu á Kópavogsvelli fimmtudaginn 13. febrúar og svo útileikinn viku síðar.

Til viðbótar við Víkinga eru tvö Íslendingalið í umspilinu. Andri Lucas Guðjohnsen leikur með belgíska liðinu Gent og Rúnar Alex Rúnarsson er á mála hjá FC Kaupmannahöfn.

Gætu mögulega mætt Alberti

Ef Víkingar komast áfram í 16-liða úrslit er þegar orðið ljóst að mótherji þeirra þar yrði annað hvort Fiorentina, lið Alberts Guðmundssonar, eða Rapid Vín. Dregið verður í 16-liða úrslitin 21. febrúar, eftir umspilsleikina sem fara fram 13. og 20. febrúar.

Liðin átta sem eru þegar komin áfram í 16-liða úrslit eru Chelsea, Vitoria, Fiorentina, Rapid Vín, Djurgården, Lugano, Legia Varsjá og Cercle Brugge.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×