Enski boltinn

Króatíski metalhausinn á að bjarga málunum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ivan Juric entist ekki lengi sem þjálfari Roma en freistar þess að snúa gengi Southampton við í sínu fyrsta starfi utan Ítalíu.
Ivan Juric entist ekki lengi sem þjálfari Roma en freistar þess að snúa gengi Southampton við í sínu fyrsta starfi utan Ítalíu. Marco Luzzani/Getty Images

Southampton, botnlið ensku úrvalsdeildarinnar, er í þann mund að ráða Króatann Ivan Juric sem þjálfara. Hann þjálfaði síðast Roma á Ítalíu og gekk illa þar.

Juric er tæplega fimmtugur og hefur allan sinn þjálfaraferil starfað á Ítalíu. Hann hefur þar stýrt Mantova, Crotone, Genoa í þrígang, auk Verona, Torino og nú síðast Roma.

Hann tók við Roma af Daniele De Rossi í haust en entist ekki lengi í starfi. Hann stýrði höfuðborgarfélaginu aðeins í tólf leikjum frá september fram til 10. nóvember þegar hann var rekinn. Roma vann aðeins fjóra af þessum tólf leikjum.

Juric virðist nú á leið í sitt fyrsta þjálfarastarf utan Ítalíu og freistar þess að bjarga nýliðum Southampton frá falli úr ensku úrvalsdeildinni. Hann tekur við starfinu af Russell Martin, sem stýrði liðinu upp úr ensku B-deildinni í vor.

Southampton hefur átt í vandræðum í upphafi móts og er aðeins með fimm stig eftir 16 leiki. Aðeins einn leikur hefur unnist og 13 tapast.

Króatíski metalhausinn Juric vonast nú til að snúa gengi liðsins við en í viðtali við Rolling Stone árið 2010 játaði hann ást sína á hljómsveitum á borð við Napalm Death, Carcass, Megadeath, Soundgarden og Metallica.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×