Fótbolti

Bróðir Pogba dæmdur fyrir að kúga af honum fé

Sindri Sverrisson skrifar
Paul Pogba er í leit að nýju félagi en hann má byrja að æfa fótbolta að nýju í janúar, þegar hann losnar úr banni eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Hann má byrja að spila í mars.
Paul Pogba er í leit að nýju félagi en hann má byrja að æfa fótbolta að nýju í janúar, þegar hann losnar úr banni eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Hann má byrja að spila í mars. Getty/Andrea Staccioli

Mathias Pogba hlaut í dag þriggja ára fangelsisdóm fyrir að kúga fé af yngri bróður sínum, franska fótboltamanninum Paul Pogba.

Mathias Pogba er einn af sex mönnum sem dæmdir voru og hlutu þeir á bilinu 3-8 ára fangelsisdóma.

Dómurinn sem Mathias Pogba hlaut var til þriggja ára en þar af eru tvö ár skilorðsbundin. Þá mun hann geta tekið út eina árið sem ekki er skilorðsbundið utan fangelsismúra, í stofufangelsi.

Lögmaður Mathias Pogba segir að dómnum verið áfrýjað en dómurinn er í samræmi við óskir saksóknara.

Paul Pogba, sem er fyrrverandi leikmaður Juventus og Manchester United, var ekki viðstaddur dóminn.

Bróðir hans og æskuvinir kúguðu af Paul Pogba fé árið 2022. Sagðist fótboltamaðurinn hafa greitt hópnum 100.000 evrur, eftir að tveir hettuklæddir menn með riffla hefðu rænt honum og að þeir hefðu krafist 13 milljóna evra.

Auk fangelsisdóms þarf Mathias Pogba að greiða 20.000 evrur í sekt fyrir þátttöku sína í fjárkúguninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×