Körfubolti

Pippen stríddi dómurunum á NBA leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Scottie Pippen skemmti sér og öðrum með uppátæki sínu nema kannski dómurunum.
Scottie Pippen skemmti sér og öðrum með uppátæki sínu nema kannski dómurunum. Getty/Tom Weller

Scottie Pippen er löngu hættur að spila í NBA deildinni í körfubolta en hann náði samt að hafa áhrif á NBA leik á dögunum.

Stríðnispúkinn kom þá fram hjá Pippen þegar hann mætti á leik Los Angeles Lakers og Memphis Grizzlies í Crypto.com Arena í Los Angeles.

Pippern fékk sæti á gólfinu sem var á besta stað fyrir aftan aðra körfuna.

Í einu leikhléanna þá tók Pippen boltann sem kom rúllandi til hans. Pippen ákvað að fela boltann fyrir dómurum leiksins.

Þegar dómararnir ætluðu að byrja leikinn eftir þetta leikhlé þá fundu þeir ekki boltann í fyrstu. Það varð því smá töf á leiknum.

Myndband náðist af öllu saman og meðal annars þegar einn dómarann var augljóslega að leita að boltanum.

Áhorfendur hlógu síðan mikið þegar dómararnir uppgötvuðu loksins að boltinn væri í felum hjá Pippen.

Allir höfðu gaman af þessu á endanum en hér eftir verður Pippen alltaf grunsamlegur þegar boltinn finnst ekki.

Pippen varð sex sinnum NBA meistari við hlið Michael Jordan hjá Chicago Bulls á árunum 1991 til 1998. Hann lék alls sautján tímabil í NBA og er af mörgum talinn vera í hópi bestu framherja sögunnar.

Pippen var fjölhæfur sóknarleikmaður en einnig mjög góður varnarmaður. Meðaltölin hans í 1178 NBA deildarleikjum voru 16,1 stig, 6,4 fráköst, 5,2 stoðsendingar og 2,0 stolnir boltar í leik.

Pippen var svo ánægður með uppátæki sitt að hann birti myndband af því á samfélagsmiðlum sínum eins og sjá má hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×