Innlent

Sáð­lát yfir and­lit með valdi nauðgun eftir allt saman

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm sinn í málinu í dag.
Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm sinn í málinu í dag. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Landsréttar þess efnis að háttsemi sem Gareese Joshua Gray var ákærður fyrir hafi verið nauðgun. 

Hann er dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að nauðga sextán ára stúlku sumarið 2021, en þá var Gareese nítján ára.

Í héraðsdómi Norðurlands eystra var Gareese sakfelldur fyrir brot gegn blygðunarsemi fyrir að hafa fróað sér þar sem hann var klofvega á hnjánum yfir líkama sextán ára stúlku og fengið sáðlát yfir andlit hennar þrátt fyrir að hún gerði honum ljóst að hún væri því mótfallinn.

Þá hlaut hann níu mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundinn til tveggja ára.

Landsréttur komst að annarri niðurstöðu og vildi meina að um nauðgun væri að ræða, og dæmdi hans líkt og áður segir í tveggja ára fangelsi. Og Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu í dag.

Í dómi Hæstaréttar segir að háttsemi Gareese hafi fallið undir hugtakið „önnur kynferðismök“. Það eigi við um kynferðislega misnotkun á líkama annarrar manneskju sem er ekki „hefðbundið samræði“, eins og það er orðað í dómi Hæstaréttar.

Þessi misnotkun er sögð almennt til til þess fallin að veita geranda kynferðislega útrás.

„Horfa verður til þess að ákærði var klofvega yfir brotaþola og varnaði henni undankomu samtímis því að fróa sér nærri andliti hennar þangað til hann felldi sæði yfir það. Þessi háttsemi ákærða fól í sér kynferðislega misnotkun á líkama brotaþola, hafði sama gildi og hefðbundið samræði og var til þess fallin að veita honum kynferðislega útrás. Verður því fallist á með Landsrétti að um hafi verið að ræða „önnur kynferðismök“ í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og sú heimfærsla brotsins staðfest,“ segir í dómi Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×