Handbolti

Stelpurnar hans Þóris tryggðu sér tvær milljónir hver

Sindri Sverrisson skrifar
Norsku stelpurnar höfðu ærna ástæðu til að fagna á sunnudaginn.
Norsku stelpurnar höfðu ærna ástæðu til að fagna á sunnudaginn. EPA/MAX SLOVENCIK

Norska handknattleikssambandið hefur nú greint frá því hvað leikmenn norska landsliðsins fá í sinn hlut fyrir að landa sigri á Evrópumótinu á sunnudaginn.

Stelpurnar hans Þóris Hergeirssonar unnu Evrópumótið með afar sannfærandi hætti og kvöddu þannig þjálfa sinn með viðeigandi hætti. Þær unnu alla níu leiki sína og urðu Evrópumeistarar í tíunda sinn.

Þórir Hergeirsson var tolleraður eftir lokaleik sinn sem þjálfari norska liðsins á sunnudag, þegar Noregur vann ellefta stórmótið undir hans stjórn.EPA/Liselotte Sabroe

Nú hefur norska handknattleikssambandið greint frá því að hver leikmaður fái 130.000 norskar krónur fyrir að vinna gullið, og auk þess 30.000 norskar krónur fyrir að tryggja sér um leið sæti á næsta stórmóti, HM á næsta ári.

Samtals nemur upphæðin því 160.000 norskum krónum, sem samsvarar tæplega tveimur milljónum íslenskra króna.

Noregur vann sjö marka sigur gegn Danmörku á sunnudaginn, 31-24, í úrslitaleik EM. Þetta var fjórtándi úrslitaleikur norska liðsins á fimmtán árum með Þóri sem aðalþjálfara, og vann liðið ellefu titla á þessum tíma. Liðið kveður Þóri sem ríkjandi Evrópu- og Ólympíumeistari.


Tengdar fréttir

„Ég er svo ótrúlega stolt af þér pabbi“

María Þórisdóttir sendi föður sínum fallega kveðju eftir að Þórir Hergeirsson endaði þjálfaraferil sinn hjá norska kvennalandsliðinu í handbolta með því að vinna sitt ellefta stórmót með norska landsliðinu.

Af­henti Þóri gjöf á blaða­manna­fundi eftir leik

Það er engum blöðum um það að fletta að Þórir Hergeirsson nýtur mikillar virðingar í handboltaheiminum. Það kom berlega í ljós á blaðamannafundi eftir úrslitaleik Noregs og Danmerkur á Evrópumótinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×