Erlent

Rúss­nesk olíu­skip í sjávar­háska á Svarta­hafi

Magnús Jochum Pálsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Ljósmynd sem er tekin úr myndbandi af vettvangi þar sem sjá má tankskipið brotið í tvennt og í þann mund að sökkva.
Ljósmynd sem er tekin úr myndbandi af vettvangi þar sem sjá má tankskipið brotið í tvennt og í þann mund að sökkva. AP

Tvö rússnesk olíuskip með alls 27 innanborðs eru stórskemmd eftir hremmingar á Svartahafi, í Kerch-sundi sem sker Rússland og Krímskaga.

Gríðarlegur olíuleki varð út frá slysi tankskipsins Volgoneft-212 og lést einn úr áhöfninni. Fjöldi björgunarsveitarmanna var kallaðir út og segja Rússar að tekist hafi að bjarga hinum tólf úr áhöfninni. Skipið virðist hafa sokkið á endanum en upplýsingar um það eru á reiki.

Myndskeið frá vettvangi sýna tankskipið Volgoneft-212 í ofsaveðri þar sem það virðist brotið í tvennt og við það að hverfa ofan í djúpið.

Annað tankskip, Volgoneft-239, með fjórtán manna áhöfn lenti einnig í sjóhrakningum og rak í land um 80 metrum frá Taman-höfn í Krasnodar-héraði.

Samanlagt voru skipin með um 9.000 tonn af mazut, sem er gæðalítil svartolía, samkvæmt miðlinum Tass. Á myndefni má sjá svarta slikju í sjónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×