Fótbolti

Á­tján ára strákur með tvö mörk fyrir Chelsea í Sambandsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marc Guiu fagnar öðru marka sinna í frostinu í Kasakstan í dag. Hann þakkar Pedro Neto fyrir stoðsendinguna.
Marc Guiu fagnar öðru marka sinna í frostinu í Kasakstan í dag. Hann þakkar Pedro Neto fyrir stoðsendinguna. Getty/Chris Lee

Chelsea sótti þrjú stig í kuldann í Kasakstan í Sambandsdeildinni í dag. Liðið vann þá 3-1 sigur á heimamönnum í FC Astana en öll mörkin komu í fyrri hálfleiknum.

Chelsea hvíldi marka lykilmenn í þessum leik og margir ungir strákar fengu að spreyta sig í leiknum. Aðstæður voru erfiðar enda frostið mikið í Astana á þessum tíma ársins.

Marc Guiu, átján ára spænskur framherji, skoraði tvö mörk fyrir Chelsea í fyrri hálfleiknum. Hann var ekki í hópnum í síðustu þremur deildarleikjum en spilaði í 62 mínútur í sigri á Heidenheim í síðasta leik í Sambandsdeildinni.

Guiu greip tækifæri og skoraði tvö góð mörk. Samkeppnin um sæti í aðalliðinu er hins vegar mjög mikil.

Aðrir guttar í byrjunarliði Chelsea voru hinn átján ára gamli kantmaður Tyrique George, átján ára varnarmaðurinn Josh Acheampong og hinn nítján ára gamli miðjumaður Samuel Rak-Sakyi.

Mörkin hans Guiu komu bæði á fyrstu tuttugu mínútunum eða á 14. og 19. mínútu. Pedro Neto lagði upp fyrra markið.

Renato Veiga kom Chelsea síðan í 3-0 á 40. mínútu eftir stoðsendingu frá Kiernan Dewsbury-Hall.

Astana minnkaði muninn á lokamínútu fyrri hálfleiks með marki Marin Tomasov.

Það voru síðan engin mörk skoruð í seinni hálfleiknum.

Chelsea er á toppnum í Sambandsdeildinni en liðið hefur unnið alla fimm leikina sína og markatalan er 21-4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×