Viðskipti innlent

Margrét tekur við nýju hlut­verki hjá Advania

Atli Ísleifsson skrifar
Margrét Gunnlaugsdóttir er nýr framkvæmdastjóri vaxtar og viðskiptaþróunar.
Margrét Gunnlaugsdóttir er nýr framkvæmdastjóri vaxtar og viðskiptaþróunar. Baldur Kristjáns

Margrét Gunnlaugsdóttir hefur tekið við nýrri stöðu framkvæmdastjóra vaxtar og viðskiptaþróunar hjá Advania á Íslandi.

Frá þessu segir í tilkynningu frá Advania. Þar kemur fram að í nýju hlutverki muni Margrét leiða stefnumótun og framkvæmd verkefna sem snúi að vexti félagsins. Í því felist meðal annars ábyrgð á verkefnum þvert á félagið sem snúi að markaðs og sölustarfi bæði til núverandi viðskiptavina og öflun nýrra viðskiptatækifæra.

„Margrét hóf störf hjá Advania árið 2018, fyrst sem forstöðukona viðskiptaþróunar rekstrarlausna. Þá fór hún fyrir mannauðslausnum félagsins um skeið, en síðustu fjögur ár var hún framkvæmdastjóri Sérlausna.

Áður en Margrét gekk til liðs við Advania var hún vöru- og viðskiptaþróunarstjóri hjá Já, sviðsstjóri þjónustu og ráðgjafar hjá Wise og rekstrarstjóri tækniþjónustu Íslandsbanka. Margrét er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið PMD stjórnendanámi frá Háskólanum í Reykjavík,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur segir að svið sérlausna Advania hafi verið stofnað með það markmið að bæta vörustýringu lausna Advania og góðum árangri hafi verið náð eftir mikið umbótaferli. „Með þessari breytingu munu Sérlausnir verða lagðar niður og þau svið sem tilheyrðu áður Sérlausnum; Mannauðslausnir, Veflausnir og Rafræn viðskipti, færast til Hugbúnaðarlausna og Viðskiptalausna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×