Fótbolti

Þakk­látur Slot og glaður yfir að vera líkt við goð­sögn

Sindri Sverrisson skrifar
Ryan Gravenberch þurfti að sinna viðtalsbeiðnum í Girona í gær.
Ryan Gravenberch þurfti að sinna viðtalsbeiðnum í Girona í gær. Getty/Andrew Powell

Hollendingurinn Ryan Gravenberch hefur slegið í gegn með Liverpool á þessari leiktíð, eftir að hafa átt erfitt uppdráttar undir stjórn Jürgens Klopp síðasta vetur. Hann er mættur til Spánar í leik gegn Girona í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

„Núna spila ég marga leiki í byrjunarliðinu, svo þetta er ólíkt því sem var. Þjálfarinn gaf mér sjálfstraust þegar ég þurfti á því að halda, og ég er ánægður með að geta sýnt aftur hvað ég kann,“ sagði Gravenberch við TNT Sports.

Gravenberch gegndi ólíkum hlutverkum og var alls enginn lykilmaður í Liverpool síðasta vetur, á sinni fyrstu leiktíð eftir komuna frá Bayern München.

Eftir að landi hans, Arne Slot, tók við Liverpool í sumar og félaginu mistókst að landa Martin Zubimendi, þá hefur Gravenberch hins vegar eignað sér stöðu aftasta miðjumanns með glæsibrag. Það hefur virkað vel fyrir Liverpool sem er efst í ensku úrvalsdeildinni og í Meistaradeildinni.

Þurfti að fá runu af leikjum

Í Meistaradeildinni er Liverpool með fullt hús stiga eftir fimm leiki og getur bætt sjötta sigrinum við í dag, en leikur liðsins við Girona hefst klukkan 17:45.

Gravenberch er ekki í vafa um hvað valdi því hve vel hann hefur spilað það sem af er leiktíð: „Það er bara það að fá runu af leikjum. Maður þarf á því að halda. Stundum getur þetta verið mjög erfitt. Til dæmis ef maður er á bekknum, spilar svo vel næst en ert samt aftur á bekknum, kemur svo inn á í tíu mínútur og þær ganga kannski ekki eins og þú hefðir viljað. Svo ertu mættur aftur á bekkinn í næsta leik. Þetta er erfitt.“

Gravenberch fékk mikið hrós eftir síðasta leik Liverpool í Meistaradeildinni, þegar liðið vann sannfærandi 2-0 sigur á meisturum Real Madrid. Honum var þá líkt við Þjóðverjann Toni Kroos sem lagði skóna á hilluna í sumar, eftir að hafa verið lykilmaður hjá Real og unnið til dæmis Meistaradeild Evrópu fimm sinnum með liðinu, og áður einu sinni með Bayern München.

„Það er gaman að heyra þetta [samanburð við Kroos], auðvitað, því Toni Kroos er goðsögn í íþróttinni. Hann afrekaði margt svo að þetta er gaman að heyra. En horfi ég til annarra miðjumanna? Nei, í raun ekki. Ég horfi bara á sjálfan mig,“ sagði Gravenberch.

„Það var gaman að vinna þau [Real Madrid og Leverkusen] því þetta eru virkilega góð lið, en við horfum bara á einn leik í einu og sjáum svo til. Auðvitað vilja menn vinna alla leiki svo markmið okkar er það fyrir hvern leik í deildinni. Það hefði mikla þýðingu ef okkur tækist að vinna alla leiki okkar í keppninni,“ sagði Gravenberch.

Leikur Girona og Liverpool hefst klukkan 17:45 og er sýndur á Vodafone Sport. Fylgst verður með öllum sjö leikjunum sem hefjast klukkan 20 í Meistaradeildarmessunni á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×