Íslenski boltinn

Ef launin væru svo há hefði ég gert fimm ára samning

Stefán Árni Pálsson skrifar
Damir heldur út til Brúnei í 26 klukkustunda ferðalag á laugardaginn.
Damir heldur út til Brúnei í 26 klukkustunda ferðalag á laugardaginn. vísir/sigurjón

Íslandsmeistarinn Damir Muminovic mun leika með DPMM frá Brúnei á næsta ári og mun spila með liðinu í úrvalsdeildinni í Singapúr. Miðvörðurinn hækkar í launum.

Damir varð Íslandsmeistari með Blikum í október. Á laugardaginn heldur hann út til Brúnei þar sem næsta ævintýri tekur við. Níu lið leika í úrvalsdeildinni í Singapúr en eitt þeirra, DPMM, er staðsett í Brúnei.

„Þetta kom upp í gegnum einn félaga minn í apríl fyrst og gekk þá ekki upp því miður. Svo heyrði hann í mér um mitt sumar aftur og spurði hvort ég hefði enn þá áhuga á þessu og ég var bara klár að prófa eitthvað nýtt,“ segir knattspyrnumaðurinn í Sportpakkanum í gærkvöldi.

Fann strax golfvelli

Damir er mikill golfari og það fyrsta sem hann gerði var að finna golfvelli í Brúnei. En að öðru leyti veit hann lítið út í hvað hann er að fara.

„Það eina sem ég veit er það sem ég sé á Google en ég er búinn að sjá nokkra leiki hjá liðinu og þetta lítur bara þokkalega vel út,“ segir Damir sem veit mjög lítið um styrkleika deildarinnar ytra.

Einhver umræða hefur verið um laun Damirs en hann segir að sú umræða sé stórlega ýkt. Tölur eins og tólf milljónir á mánuði hafa heyrst í hlaðvarpsheimi hér á landi.

„Ég get alveg viðurkennt það að þetta eru hærri laun. En þetta eru ekki jafn há laun og komu í fréttunum um daginn, þannig að ég myndi ekki trúa öllu sem þú lest, annars hefði ég gert fimm ára samning.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×