Innlent

„Já­kvæðari“ öskur en óttast var í fyrstu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti fjölbreyttum verkefnum í gærkvöldi og nótt.
Lögregla sinnti fjölbreyttum verkefnum í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti útkalli í gærkvöldi eða nótt þegar tilkynnt var um öskur konu koma frá íbúð. Reyndust öskrin vera „á heldur jákvæðari nótum en óttast var í fyrstu“ segir í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar án þess að það sé útskýrt nánar.

Tveir voru handteknir eftir að átök brutust út þeirra á milli á heimili í póstnúmerinu 110. Voru þeir vistaðir í fangageymslu og málið í rannsókn. Í sama hverfi var tilkynnt um tvo einstaklinga sem höfðu komið sér fyrir í geymslu og kveikt eld til að hlýja sér en þeim var vísað út án vandræða.

Lögregla var einnig kölluð til vegna elds í bifreið í Mosfellsbæ en þegar komið var að reyndist bíllinn alelda og var slökkvilið kallað til. 

Einn var handtekinn í miðborginni grunaður um rán með „rafstuðtæki“ og þá var tilkynnt um innbrot í verslun í póstnúmerinu 108. 

Lögreglu barst einnig tilkynning um umferðarslys í Kópavogi þar sem bifreið hafði verið ekið utan í vegrið. Ökumaðurinn hafði yfirgefið bifreiðina þegar komið var að en snéri aftur á meðan lögregla var að störfum á vettvangi og var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis.

Annar ökumaður var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum eftir umferðarslys í póstnúmerinu 113, þar sem bifhjól og jepplingur lentu saman. Ökumaður bifhjólsins slasaðist lítillega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×