Erlent

Í skýrslu­töku í tengslum við morðið í New York

Jón Þór Stefánsson skrifar
Myndir af grunuðum morðingja úr öryggismyndavélum í New York.
Myndir af grunuðum morðingja úr öryggismyndavélum í New York. AP/Lögreglan í New York

Maður er í skýrslutöku hjá lögreglunni vestanhafs í tengslum við rannsókn á launmorði á götum New York á dögunum sem beindist að einum forstjóra eins stærsta sjúkratryggingafyrrirtækis Bandaríkjanna.

New York Times greinir frá þessu, en þar segir að maðurinn hafi verið tekinn í skýrslutöku eftir ábendingu. Hann hafi þó ekki verið handtekinn eða verið kærður í málinu.

Sá sem benti lögreglu á manninn sagðist hafa séð hann á skyndibitastaðnum McDonalds með byssu, hljóðdeyfi og fölsk skilríki, líkt og þau sem hinn grunaði morðingi er talinn hafa notað. Þá segir New York Times að sá sem er nú yfirheyrður hafi verið með skotvopn álíkt því sem morðinginn er talinn hafa notað.

CNN greinir frá því að maðurinn sé í haldi í Pennsylvaníu. Hann hafi verið með tveggja blaðsíðna stefnuyfirlýsingu þar sem hann gagnrýndi heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum harðlega, en hinn látni starfaði hjá einu stærsta sjúkratryggingafyrirtæki Bandaríkjanna. Í þessari stefnuyfirlýsingu mun hann hafa stungið upp á því að ofbeldi væri svarið við gölluðu heilbrigðiskerfi.

CBS greinir frá því að maðurinn hafi verið handtekinn af lögreglu í tengslum við annað mál. Í fórum sínum hafi maðurinn verið með byssu með hljóðdeyfi og falsað ökuskírteini.

Hinn látni heitir Brian Thompson og var forstjóri UnitedHealthcare. Líkt og áður segir var hann skotinn út á götu í New York í síðustu viku. Myndband úr öryggismyndavélum bendir til þess að morðinginn hafi beðið sérstaklega eftir hinum látna.

Leitin að morðingjanum hefur verið gríðarlega umfangsmikil, en málið hefur verið á allra vörum vestanhafs.

Hann flúði af vettvangi. Talið er að hann hafi komið sér í burtu með strætisvagni skömmu eftir drápið. Samkvæmt New York Times er lögreglan enn að óska eftir upplýsingum um málið og grunaðann morðingja.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá CNN og CBS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×