Íslenski boltinn

Arnór ráðinn yfir­maður knattspyrnumála hjá Val

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björn Steinar Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, og Arnór Smárason, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu.
Björn Steinar Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, og Arnór Smárason, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu. valur

Arnór Smárason hefur verið ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá Val. Hann tekur við starfinu 1. janúar næstkomandi.

Arnór lagði skóna á hilluna í haust en síðasti leikur hans á ferlinum var á Hlíðarenda. ÍA tapaði þá fyrir Val, 6-1. Arnór þekkir vel til hjá Val en hann lék í tvö tímabil með liðinu.

„Ég er afar þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt með því að ráða mig sem yfirmann knattspyrnumála hjá eins stórum og metnaðarfullum klúbbi og Valur er. Að sama skapi hlakka ég mikið til samstarfsins við allt það frábæra fólk sem ég veit að er í Val við að byggja upp og móta framtíðarsýn félagsins,“ segir Arnór í fréttatilkynningu frá Val.

Valsmönnum hefur verið legið á hálsi fyrir að vera með fáa uppalda leikmenn í sínum liðum. Arnór segist skynja vilja hjá Val að breyta þessu.

„Iðkendafjöldinn hefur tvöfaldast á síðustu árum og mér er sagt að í dag séu yfir 900 iðkendur í fótbolta í Val. Mitt hlutverk verður að virkja fólkið í félaginu og búa til umgjörð og nýta þau tækifæri sem fjölgun iðkenda færir félaginu þannig að leiðin fyrir þessa krakka verði greiðari. Við eigum að hafa metnað til þess að skila af okkur bæði góðu fótboltafólki en ekki síst góðum manneskjum,“ segir Arnór.

Hann kom víða við á leikmannaferlinum. Hann lauk ferlinum á Íslandi en spilaði þar áður í Hollandi, Svíþjóð, Rússlandi og Noregi. Arnór spilaði 26 leiki fyrir íslenska A-landsliðið auk fjölda leikja fyrir yngri landsliðin.

Valur endaði í 3. sæti Bestu deildar karla á síðasta tímabili og 2. sæti Bestu deildar kvenna auk þess að vinna Mjólkurbikar kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×