Handbolti

Öruggt hjá Haukum og Stjörnunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Össur Haraldsson skoraði sjö mörk gegn KA.
Össur Haraldsson skoraði sjö mörk gegn KA. vísir/anton

Haukar og Stjarnan unnu örugga sigra á KA og ÍBV þegar 13. umferð Olís deildar karla í handbolta lauk í kvöld.

Haukar unnu sinn annan leik í röð og fjórða sigurinn í síðustu fimm leikjum þegar liðið fékk KA í heimsókn. Lokatölur 38-31, Hafnfirðingum í vil.

Össur Haraldsson og Skarphéðinn Ívar Einarsson skoruðu sjö mörk hvor fyrir Hauka sem eru í 5. sæti deildarinnar með sextán stig, jafn mörg og Valur sem er í 4. sætinu. Aron Rafn Eðvarðsson varði fimmtán skot í marki Hauka í kvöld (32,6 prósent).

Einar Birgir Stefánsson skoraði níu mörk fyrir KA og Dagur Árni Heimisson sjö. KA-menn eru í 9. sæti deildarinnar með níu stig.

Sætaskipti hjá Stjörnunni og ÍBV

Stjarnan lyfti sér upp í 6. sæti deildarinnar með sjö marka sigri á ÍBV, 33-26, í Garðabænum. Eyjamenn, sem hafa tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum, eru núna í 7. sætinu.

Benedikt Marinó Herdísarson skoraði átta mörk fyrir Garðbæinga og Ísak Logi Einarsson sex. Jóel Bernburg og Starri Friðriksson gerðu fimm mörk hvor. Adam Thorstensen varði sextán skot í marki Stjörnunnar, eða 38,1 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.

Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði sjö mörk fyrir Eyjamenn og Daniel Esteves Vieira fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×