Handbolti

Stelpurnar hans Þóris unnu Dani

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Noregur vann grannaslaginn gegn Danmörku.
Noregur vann grannaslaginn gegn Danmörku. epa/CHRISTIAN BRUNA

Noregur hefur unnið alla fjóra leiki sína á Evrópumóti kvenna í handbolta. Í kvöld sigruðu Norðmenn Dani, 24-27, í fyrsta leik sínum í milliriðli 2.

Kristine Breistøl og Henny Reistad skoruðu fimm mörk hvor fyrir Noreg sem er með fjögur stig í 2. sæti milliriðils 2. Danmörk er með tvö stig í 3. sætinu.

Norska liðið leiddi nær allan leikinn og stóð af sér allar atlögur þess danska. Miklu munaði um frammistöðu Silje Solberg-Osthassel sem varði fimmtán skot í marki Noregs, eða 39,5 prósent þeirra skota sem hún fékk á sig.

Andrea Hansen skoraði sex mörk fyrir Danmörku og Emma Friis fimm. Anna Kristensen og Althea Reinhardt vörðu samtals fimmtán skot í danska markinu.

Þórir Hergeirsson er á sínu síðasta stórmóti sem þjálfari norska liðsins sem hefur litið afar vel út til þessa á EM.

Ungverjaland sigraði Svartfjallaland, 26-20, í milliriðli 1. Ungverjar eru með fjögur stig í 2. sæti riðilsins. Svartfellingar eru í 4. sætinu með tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×