Handbolti

Heimsmeistararnir tóku fram úr undir lokin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hart var barist í leik Frakklands og Rúmeníu.
Hart var barist í leik Frakklands og Rúmeníu. epa/Zsolt Czegledi

Frakkland þurfti að hafa talsvert fyrir því að vinna Rúmeníu í milliriðli 1 á EM í handbolta kvenna. Lokatölur 30-25, Frökkum í vil. Þá unnu Hollendingar Slóvena, 26-22.

Frakkar voru þremur mörkum yfir í hálfleik gegn Rúmenum, 12-9, og komst fimm mörkum yfir í upphafi seinni hálfleiks, 15-10. Rúmenska liðið svaraði þá fyrir sig og jafnaði í 16-16.

Þegar tólf mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn, 20-20. En heimsmeistarar Frakklands sýndu mátt sinn og megin undir lokin og unnu á endanum fimm marka sigur, 30-25. Frakkar eru með fjögur stig í milliriðli 1 en Rúmenar eru án stiga.

Chloé Valentini skoraði sex mörk fyrir franska liðið og Bianca Maria Bazaliu var með jöfn mörg mörk fyrir rúmenska liðið.

Holland, sem var með Íslandi í riðli í riðlakeppninni, var lengst af með undirtökin gegn Slóveníu. Staðan í hálfleik var 14-10, Hollendingum í vil en Slóvenar byrjuðu seinni hálfleikinn vel og komust yfir í tvígang.

Holland skoraði fjögur mörk í röð eftir að Slóvenía komst í 16-17 og leit ekki til baka eftir það. Á endanum munaði fjórum mörkum á liðunum, 26-22.

Antje Angela Malestein skoraði sex mörk fyrir Holland og Tjasa Stanko sjö fyrir Slóveníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×