Formúla 1

Russell segir að Verstappen hafi hótað að klessa á hann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Deila Georges Russell og Max Verstappen er ansi harðvítug. 
Deila Georges Russell og Max Verstappen er ansi harðvítug.  getty/Bryn Lennon

George Russell, ökumaður Mercedes, hefur svarað Max Verstappen. Hann segir að heimsmeistarinn hafi hótað að klessa á hann í kappakstrinum í Katar og meiða hann.

Russell og Verstappen lenti saman í Katar um síðustu helgi. Verstappen var ósáttur við hversu hart Russell gekk fram í tilraun sinni til að láta refsa heimsmeistaranum eftir tímatökur. Ráspólinn var tekinn af Verstappen eftir að hann þótti hafa ekið óþarflega hægt fyrir lokahring tímatakanna. Russell fékk ráspólinn eftir úrskurð keppnisstjórnar.

Þrátt fyrir að hafa misst ráspólinn vann Verstappen kappaksturinn í Katar. Eftir hann lét hann Russell heyra það og sagðist hafa misst alla virðingu fyrir honum.

Russell hefur nú svarað fyrir sig. Honum segist hafa brugðið þegar Verstappen hótaði að aka viljandi á hann.

„Hann sagðist ætla að klessa á mig og setja hausinn á mér í vegginn. Ég veit að þetta var sagt í hita leiksins en daginn eftir vorum við að grínast með [Sergio] Perez og Carlos [Sainz] og ég sá að hann meinti þetta,“ sagði Russell.

„Hann er fjórfaldur meistari. Lewis [Hamilton] er meistari að mínu skapi. Harður en sanngjarn. Fer aldrei yfir strikið. Að heimsmeistari segi að hann ætli að leggja sig fram um að klessa á einhvern og setja hann á hausinn er ekki fordæmið sem við ættum að sýna.“

Verstappen gaf lítið fyrir þessi ummæli Russells í samtali við hollenska blaðið De Telegraf. Hann sagði Russell vera svikulan vesaling og kvaðst ekki hafa sagt það sem hann sakaði hann um.

„Það er ekki satt. Ég sagði þetta ekki svona. Hann er að reyna að ýkja þetta aftur,“ sagði Verstappen.

Síðasta keppni tímabilsins fer fram í Abú Dabí um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×