Handbolti

Vill gera rót­tækar breytingar á um­hverfi kvenna­lands­liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir er ein af framtíðarleikmönnum íslenska landsliðsins en hún steig sín fyrstu stórsmótaskref á EM í ár.
Elín Klara Þorkelsdóttir er ein af framtíðarleikmönnum íslenska landsliðsins en hún steig sín fyrstu stórsmótaskref á EM í ár. Getty/Henk Seppen

Handboltaþjálfarinn Einar Jónsson segir að gjörbreyta þurfi landslagi íslenska kvennalandsliðsins hér heima fyrir svo að liðið nái að taka næstu skref á alþjóðlegum vettvangi.

Íslenska landsliðið féll úr leik á Evrópumótinu í handbolta á þriðjudaginn eftir ellefu marka tap á móti Þjóðverjum, 30-19. Mótið var í heild nokkuð fínt hjá liðinu, það tapaði naumlega fyrir Hollendingum í fyrsta leik en vann svo Úkraínu í leik tvö. Þjóðverjar voru aftur á móti of stór biti. Liðið endaði í sextánda sæti á mótinu.

Erum nokkuð ánægð með þetta mót

„Ég held að við getum verið nokkuð ánægð með þetta mót. Við náðum að vinna Úkraínu sem var okkar fyrsti sigur á Evrópumóti sem er mjög jákvætt. Hollandsleikurinn var mjög jákvæður. Ef það er eitthvað svona eftir á, þó að það hefði ekki gert mikið fyrir okkur, þá var þar kannski möguleiki að stela stigi eða stigum,“ sagði Einar Jónsson í samtali við Stefán Árna Pálsson.

„Þýskalandsleikurinn var mjög erfiður og þær henta okkur mjög illa,“ sagði Einar.

„Að mínu mati þurfum við að gera dálítið róttækar breytingar í okkar umhverfi ef við ætlum að fara lengra. Ég sé þetta ekki fara mikið lengra ef við ætlum að vera áfram í sama farinu,“ sagði Einar.

Horfa á Holland og Sviss

„Við þurfum að taka þetta upp á annað stig. Mínar hugmyndir að því eru að horfa svolítið á það hvernig Hollendingar og Svisslendingar hafa gert þetta undanfarin ár. Þetta eru engar stórþjóðir í handbolta en hafa náð árangri í kvennabolta,“ sagði Einar.

„Svisslendingar fóru upp úr riðlinum sínum á þessu EM og Holland búið að vera með virkilega gott lið síðustu tíu til fimmtán ár. Þeir tóku virkilega til í sínum málum,“ sagði Einar.

Æfa einu sinni í viku

„Þeir fóru að láta kvennaliðið og yngri landsliðin æfa saman einu sinni í viku eða hvort það var eina helgi í mánuði. Svisslendingar hafa verið að gera þetta með svipuðum hætti. Þetta er einhver aðferð sem mér myndi hugnast ef við ætlum að reyna að komast upp á næsta stig,“ sagði Einar.

„Við þurfum að styrkja deildina hérna heima. Ég held að það myndi gerast með því að gera þetta en auðvitað eru kannski einhverjar aðrar aðferðir til. Þarna er ég að horfa í ákveðnar fyrirmyndir,“ sagði Einar.

„Ég myndi vilja sjá það að leikmenn væru ekki að fara út nema ef að þær væru að fara í alvöru lið, í alvöru umhverfi og til alvöru þjálfara. Vera frekar hérna heima og styrkja deildina,“ sagði Einar.

A-landsliðið karla ekki fyrirmyndin

„Við þurfum að passa okkur að vera ekki alltaf að horfa á það hvernig karlalandsliðið okkar er. A-landslið karla er ekki endilega fyrirmyndin af því hvernig þú átt að gera þetta með A-landslið kvenna. Það er ekkert til að skammast sín fyrir,“ sagði Einar.

„Við eigum bara að horfa í það hvernig við getum náð sem bestum árangri með A-landslið kvenna,“ sagði Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×