Innlent

Þyrla Land­helgis­gæslunnar kölluð út vegna slyss í íshellaferð

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út á ellefta tímanum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út á ellefta tímanum. Vísir/Vilhelm

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út að Kötlujökli rétt fyrir klukkan 11 vegna einstaklings sem slaðist á fæti í íshellaferð á svæðinu.

„Sökum þess að það er töluverður burður og tiltölulega langt í næsta veg þannig að þess vegna var talin þörf á því að kalla út þyrluna,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. Erfitt aðgengi sé að einstaklingnum.

Tvær björgunarsveitir á svæðinu hafi einnig verið kallaðar út samkvæmt Jóni Þóri Víglundssyni, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Björgunarsveitin Víkverji sé mætt á staðinn og sjúklingurinn kominn í bíl.

Einstaklingurinn sem um ræðir er ferðamaður í íshellaferð á vegum ferðaskrifstofunar Tröll. Hópurinn var á gangi í átt að bílastæði eftir ferðina þegar ferðamaðurinn slasaðist. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×