Handbolti

Monsi með eitt besta mark vikunnar í Evrópudeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úlfar Páll Monsi Þórðarson vakti athygli í lokaleik Valsmanna í Evrópudeildinni.
Úlfar Páll Monsi Þórðarson vakti athygli í lokaleik Valsmanna í Evrópudeildinni. Vísir/Anton Brink

Valsmaðurinn Úlfar Páll Monsi Þórðarson stóð sig vel með sínu liði í síðasta Evrópuleik Valsmanna á tímabilinu og kom sér um leið í góðan úrvalshóp.

Monsi, eins og við þekkjum hans best, skoraði nefnilega eitt af bestu mörkum vikunnar í Evrópudeildinni.

Hann deilir þeim heiðri með fjórum öðum leikmönnum sem eru Svíinn Sebastian Spante, Austurríkismaðurinn Nikola Bilyk, Króatinn Kresimir Kozina og Frakkinn

Yanis Lenne.

Markið skoraði Monsi úr hraðaupphlaupi í útileiknum á móti Porto en hann kom þar Val yfir í 7-6 eftir tíu mínútna leik.

Hann skoraði markið með því að skjóta boltanum aftur fyrir bak eins og Óðinn Þór Ríkharðsson gerði frægt á EM. Það fer að líða að því að handboltasérfræðingar fari að kalla þetta íslensku afgreiðsluna.

Monsi var alls með sex mörk úr sjö skotum í leiknum og var markahæstur í Valsliðinu í leiknum. Hér fyrir neðan má sjá bestu mörk vikunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×