Innlent

Óvenju­legt að bólu­efni séu skráð sem dánar­orsök

Kjartan Kjartansson skrifar
Alvarlegar aukaverkanir af Covid-bóluefnum eru sjaldgæfar. Því þykir óvenjulegt að tilkynnt sé um fjögur andlát af völdum þeirra af sama lækni á stuttu tímabili.
Alvarlegar aukaverkanir af Covid-bóluefnum eru sjaldgæfar. Því þykir óvenjulegt að tilkynnt sé um fjögur andlát af völdum þeirra af sama lækni á stuttu tímabili. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir segir það afar óvenjulegt ef rétt reynist að fjórir einstaklingar í umsjón sama læknis hafi látist af völdum bóluefnis gegn Covid-19 í ljósi þess hversu fágætar alvarlegar aukaverkanir séu. Óháðir sérfræðingar kanna skráningar læknisins á orsökum andlátanna.

Bóluefni gegn Covid-19 var í fyrsta skipti skráð sem dánarorsök á Íslandi í dánarmeinaskrá embættis landlæknis í fyrra. Ríkisútvarpið greindi frá því í gær að embættið hefði skráningarnar til skoðunar. Sami læknir skráði öll andlátin síðasta haust. Þau voru þó ekki öll á sama hjúkrunarheimilinu, þvert á það sem RÚV hafði eftir heimildum sínum.

Guðrún Aspelund, sóttvarnalæknir, segir við Vísi að skráningarnar séu til skoðunar í ljósi þess að þær snúist um hugsanlega alvarlegar aukaverkanir af bólusetningu og að þær séu þær fyrstu af sínu tagi í dánarmeinaskránni.

Rannsóknir sem hafa verið gerðar á bóluefnum gegn Covid-19 sem milljónir manna um alla heim hafa fengið undanfarin ár leiða í ljós að alvarlegar aukaverkanir eru sjaldgæfar. Engin tengsl hafa fundist við andlát. Líkurnar á að fjórir einstaklingar í umsjón sama læknis hafi látist af völdum bóluefnis á svo skömmum tíma eru því hverfandi.

„Ég myndi telja að það væri mjög óvanalegt og það er full ástæða til þess að skoða það,“ segir Guðrún.

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.Vísir/Vilhelm

Áður fengið óháða sérfræðinga til að kanna tilkynningar um andlát

Óháðir sérfræðingar verða fengnir til þess að fara yfir skráningarnar á andlátunum. Guðrún segir að það hafi tvisvar verið gert áður í tengslum við bóluefnin árið 2021.

 Þannig voru utanaðkomandi öldunarlæknar kallaðir til í tvígang vegna nokkurra andláta á hjúkrunarheimilum sem tilkynnt var um eftir bólusetningar. Í engu þeirra tilfella var talið líklegt að bóluefni hafi valdið dauða fólks.

Aðeins eitt bóluefni hefur verið í notkun hér á landi undanfarin misseri, Comirnaty frá lyfjarisanum Pfizer. Það er svokallað mRNA-bóluefni og er ætlað fólki sex mánaða og eldra samkvæmt upplýsingum á vef evrópsku lyfjastofnunarinnar.

Fjörutíu og sjö andlát voru rakin til Covid-19 í fyrra en 213 árið 2022.

Ekki frambjóðandi Ábyrgrar framtíðar

RÚV sagði jafnframt í frétt sinni að læknirinn sem skráði bóluefnin sem dánarorsök hefði verið „ötull talsmaður“ lyfsins ivermectin. Því var haldið mjög á lofti af andstæðingum bóluefna og annarra sem dreifðu upplýsingafalsi um heimsfaraldurinn þrátt fyrir að það hefði enga virkni gegn veirunni.

Guðmundur Karl Snæbjörnsson, læknir og frambjóðandi á lista Ábyrgar framtíðar til alþingiskosninganna, krafðist á sínum tíma að fá heimild til þess að vísa á ivermectin sem meðferð gegn Covid-19 en var synjað um það af Lyfjastofnun og heilbrigðisráðuneytinu. 

Þrátt fyrir að Guðmundur Karl hafi verið einn þekktasti talsmaður ormalyfsins gegn Covid-19 hér á landi er hann ekki læknirinn sem skráði bóluefnin sem orsök andlátanna fjögurra í fyrra. Hann staðfesti það sjálfur í samtali við Vísi og sagðist jafnframt hafa fengið margar spurningar um það í tilefni af frétt RÚV.


Tengdar fréttir

Fjögur andlát vegna bóluefnis við kórónuveiru til skoðunar

Embætti landlæknis hefur til skoðunar skráningu læknis á fjórum andlátum af völdum bóluefnis við kórónuveirunni. Andlát af völdum bóluefnis voru í fyrsta sinn í dánarmeinaskrá fyrir árið 2023. Sami læknirinn skráði andlátin og fólkið sem lést var allt í hans umsjá á hjúkrunarheimili.

Læknir á­minntur fyrir að gefa út vott­orð fyrir dýra­lyfi gegn Co­vid

Heilbrigðisráðuneytið staðfesti áminningu sem embætti landlæknis veitti heimilislækni fyrir að gefa út rangt og villandi læknisvottorð fyrir sjúkling sem flutti inn dýralyf sem fyrirbyggjandi meðferð við Covid-19. Læknirinn bar fyrir sig að hann vissi ekki að lyfið væri ætlað dýrum en ekki mönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×