Verðbólga hjaðnar um 0,3 prósentustig milli mánaða og mælist nú 4,8 prósent. Hún hefur ekki verið lægri síða í október 2021, þegar hún var síðast undir fimm prósentum. Finnbjörn A. Hermannsson forseti Alþýðusambands Íslands segir þessa hjöðnun í takt við spár sambandsins.
„Þetta er svona sirkabát á þeim stað sem við bjuggumst við. Og ég held að þessi gangur verði áfram, að verðbólgan lækki. Þannig að þetta er allt saman í rétta átt, að okkar mati,“ segir Finnbjörn.
Stýrivextir standa í 8,5 prósentum eftir að peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði þá um 50 punkta 20. nóvember síðastliðinn. Með hjöðnun verðbólgu eykst munur milli hennar og stýrivaxta enn frekar og þar með hækka raunvextir.
Raunvaxtastigið með því hæsta í langan tíma
Það er einmitt vegna hárra raunvaxta sem viðskiptabankarnir hafa hækkað vexti á verðtryggðum lánum, í slíku umhverfi er dýrara fyrir bankana að fjármagna verðtryggðu lánin en áður. Næsta stýrivaxtaákvörðun er ekki fyrr en í febrúar. Finnbjörn hvetur Seðlabankann til þess að lækka vexti fyrr.
„Þetta sýnir okkur að það er enn hærra raunvaxtastig í landinu heldur en var fyrir þessa mælingu. Við teljum að það sé alveg tilefni til aukafundar hjá Seðlabankanum til að halda áfram með þetta lækkunarferli. Við erum enn þeirrar skoðunar að Seðlabankinn brást of seint við, hann átti að vera kominn neðar,“ segir Finnbjörn.
„Raunvaxtastigið í landinu er með því hæsta sem gerst hefur í langan tíma. Og ég held að þetta sé hæsta raunvaxtastig í Evrópu.“
Finnbjörn vill ekki tjá sig um það hvort hann sé bjartsýnn á að Seðlabankinn verði við ákalli um aukafund. En hann segir það vissulega ekki algengt að boðað sé til slíkra funda.
„Þeir hafa gert það þegar þeir hafa þurft að hækka vexti. Þeir eru seinni til þegar kemur að lækkunum.“