Noregur spilar á sama stað og Ísland, í Innsbruck í Austurríki, og byrjar á að mæta Slóveníu annað kvöld en liðin leika í E-riðli ásamt Slóvakíu og heimakonum í austurríska liðinu.
Efstu tvö liðin komast í milliriðil með tveimur liðum úr riðli Íslands, sem berst við Holland, Þýskaland og Úkraínu um að komast í milliriðilinn, og tveimur liðum úr D-riðli (Sviss, Danmörk, Króatía, Færeyjar).
Norðmenn eru fyrir löngu orðnir vanir því að fylgjast með sínum stelpum berjast um verðlaun í desember ár hvert, og núna munu tvær af hetjum þeirra sjá um að rýna í leiki norska liðsins og setja fram sína gagnrýni, jákvæða eða neikvæða, á störf Þóris Hergeirssonar á mótinu.
Þetta eru þær Nora Mörk og Stine Oftedal Dahmke, sem báðar eru 33 ára gamlar, en þær verða á skjánum í útsendingum TV 2 og Viaplay.

Mörk er ólétt og því í hléi frá handboltanum en Oftedal hefur nú lagt handboltaskóna á hilluna. Báðar tóku þær þátt í að gera Noreg að Ólympíumeistara í Frakklandi í sumar.
Þær munu deila sinni sérfræðikunnáttu frá og með 7. desember, eða miðri milliriðlakeppninni, en fastlega má gera ráð fyrir því að Noregur fari upp úr sínum riðli og langt í keppninni.