Erlent

Kort­leggja neðan­jarðar­byrgi vegna hótana Rússa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Byrgin verða kortlög og ný mögulega byggð.
Byrgin verða kortlög og ný mögulega byggð. Getty

Stjórnvöld í Þýskalandi hyggjast smíða nýtt app þar sem landsmenn munu geta leitað upplýsinga um næsta loftvarnaskýli eða annað skjól gegn loftárásum, svo sem neðanjarðarlestarstöðvar.

Ákvörðunin virðist hafa verið tekin vegna aukinnar spennu í samskiptum Rússlands og Vesturlanda.

Unnið er að því að kortleggja þá staði þar sem fólk mun geta leitað skjóls en um 579 neðanjarðarbyrgi eru í landinu, flest frá seinni heimstyrjöldinni og kalda stríðinu. Byrgjunum hefur fækkað töluvert en þau voru 2.000 þegar mest var.

Byrgin geta veitt 480 þúsund manns skjól en Þjóðverjar eru 84 milljón talsins og því verður einnig bent á aðra staði, til að mynda opinberrar byggingar og jafnvel byggingar í einkaeigu, sem þykja geta skýlt fólki.

Þá hefur fólk verið hvatt til að huga að því að gera kjallara og bílskúra þannig að þeir geti einnig veitt skjól.

Öryggisyfirvöld í Þýskalandi sögðu í október síðastliðnum að Rússar myndu hafa getuna til að ráðast gegn Atlantshafsbandalaginu árið 2030. Þá hafa yfirvöld einnig sagt að veruleg aukning hafi orðið á njósnum og skemmdarverkum af hálfu Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×