Skoðun

Flokkur fólksins ræðst gegn hags­munum eldra fólks og komandi kyn­slóða

Þorsteinn Sæmundsson skrifar

Það er auðvelt að skapa sér velvild og vinsældir um hríð með því að ráðast gegn ímynduðum óvini. Oft ráða skammtímahagsmunir ferðinni þegar slíkt er viðhaft. Formaður flokks fólksins gerir nú tilraun til að gera sér mat úr óánægju einhverra með lífeyrssjóðakerfið með því að boða sérstaka skattlagningu á lífeyrissjóði upp á níutíu milljarða á hverju ári inn í framtíðina. Rétt er að minna á þá staðreynd að lífeyrissjóðir eiga ekki peninga. Þeir eru eftirlaunasjóðir íslensks erfiðisfólks og hafa þann eina tilgang að ávaxta sjóðina sem best til að eiga fyrir lífeyris - og örorkuréttindum framtíðarinnar. Greinarhöfundur hefur ekki sparað gagnrýni á fjárfestingar lífeyrissjóðanna í gegnum tíðina en hefur aldrei dottið í hug að skerða fjárfestingargetu sjóðanna með misvitrum tillögum. Miðað við ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna tapast rúmir tveir milljarðar á hverju ári ef níutíu milljörðum er kippt út úr ávöxtunarfé sjóðanna. Framtíðargeta sjóðanna til útgreiðslu lífeyris og örorkubóta versnar að sama skapi. Tryggingavernd sjóðeigenda rýrna samsvarandi. Það eru vond skilaboð nú þegar eldra fólk er stærri hluti þjóðarinnar en áður var og mun fara mjög fjölgandi á næstu árum og áratugum. Verra er þó þegar fólk og flokkar sem segjast andvíg skerðingum á kjörum almennings fara fram með eina stærstu skerðingartillögu sem sést hefur. Í því felst alvarlegur tvískinnungur. Það er þó af hinu góða að tillögur flokksformannsins komi fram fyrir kosningar þannig að kjósendur sjái með eigin augum hversu vart er að treysta fagurgala um fólk fyrst og annað seinna. Eftirlaunafólk og fólk sem nú er á vinnumarkaði og greiðir í lífeyrissjóð er greinilega ekki í fyrsta sæti hjá flokki fólksins.

Höfundur skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×