Innlent

Stöðugt gos og engir skjálftar

Samúel Karl Ólason skrifar
Kvika flæðir enn upp á þremur stöðum við Sundhnúksgíga.
Kvika flæðir enn upp á þremur stöðum við Sundhnúksgíga. Vísir/Vilhelm

Enn gýs á þremur stöðum í eldgosinu við Sundhnúksgíga og hefur virknin verið stöðug í nótt. Mest er hún sögð við miðbik gossprungunnar og hafa engir jarðskjálftar mælst í nótt.

Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að landsig hafi mælst á GPS-mælum á svæðinu, þar sem meiri kvika flæðir upp á yfirborðið en nær að safnast saman í kvikuhólfinu þar undir.

Þá streymir hraun enn til vesturs frá miðjugígnum og með varnargörðum við Svartsengi og Bláa lónið þar sem hraunið heldur einnig áfram að þykkna.

Frá hinum gígunum rennur hraunið til norðurs og til austurs.

Ennfremur segir í tilkynningunni að áfram sé spáð stífri norðaustanátt og að gasmengun muni því mestmegnis berast til suðvesturs og gæti hennar orðið vart í Grindavík í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×