Körfubolti

„Fannst þeir sýna meiri hörku, sem ég átti erfitt með“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tryggvi Hlinason spilaði rúmar 36 mínútur í kvöld og kom 15 stigum að.
Tryggvi Hlinason spilaði rúmar 36 mínútur í kvöld og kom 15 stigum að. vísir / anton brink

„Við misstum stjórn á leiknum í öðrum leikhlutanum, þeir taka afgerandi forystu og gegn liði eins og Ítalíu er erfitt að snúa spilinu við. Við gerðum vel og héldum áfram að berjast, það kom eitt augnablik þar sem ég hélt að við værum að snúa leiknum okkur í vil, en það fór ekki svo,“ sagði Tryggvi Hlinason, miðherji íslenska landsliðsins, eftir 71-95 tap gegn Ítalíu í Laugardalshöll.

Fyrir tveimur árum vann Ísland gegn Ítalíu í tvíframlengdum leik í Ólafssal. Tryggvi átti stórleik þá en lét ekki finna eins mikið fyrir sér í kvöld. 

„Þeir voru með sama mann á mér og síðast en lokuðu betur, bæði á mig og Elvar, sem kom í veg fyrir það sem við viljum gera sóknarlega. Á sama tíma fannst mér þeir sýna meiri hörku, sem ég átti erfitt með. Munurinn var kannski ekki mjög mikill en svona er þetta bara, stundum á maður góðan dag og stundum ekki. Það var minn dagur fyrir tveimur árum en ég var ekki upp á mitt besta í dag.“

Tryggvi tróð boltanum með látum í upphafi seinni hálfleiks og lagði grunninn að góðu áhlaupi Íslands.vísir / anton brink

Tryggvi spilaði nánast allan leikinn í kvöld, fékk smá hvíld í fyrri hálfleik en svo ekki aftur fyrr en á lokamínútunum þegar Ísland átti ekki lengur möguleika.

Framundan er ferðalag í fyrramálið til Ítalíu, endurheimt á sunnudag og leikur á mánudagskvöld.

„Ég væri að ljúga ef ég segði að ég væri ekki þreyttur, en ég ætla að ná góðum svefni fyrir ferðalagið. Vonandi getum við endurheimt orku og stillt okkur vel andlega fyrir næsta leik. Ég mun spila eins mikið og ég þarf og er ánægður með að geta hjálpað liðinu,“ sagði Tryggvi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×