Erlent

Pam Bondi kemur í stað Matt Gaetz

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Trump og Bondi hafa verið náin um árabil. 
Trump og Bondi hafa verið náin um árabil.  Getty/Michael M. Santiago/Getty Images

Donald Trump verðandi forseti Bandaríkjanna hefur nú tilnefnt Pam Bondi sem næsta dómsmálaráðherra Bandaríkjanna eftir að hinn umdeildi Matt Gaetz hrökk úr skaftinu í gær.

Bondi hefur verið mikil stuðningskona Trumps um árabil, hún er frá Flórída og gegndi um tíma stöðu dómsmálaráðherra þess ríkis. Bondi var hluti af lögfræðingateymi Trumps þegar þingið reyndi að ákæra Trump fyrir embættisbrot og einnig þegar hann var dreginn fyrir rétt í New York sakaður um að hafa greitt fyrrverandi klámstjörnu stórfé fyrir að þegja yfir sambandi þeirra.

Trump segir að Bondi hafi sýnt það á tuttugu ára löngum ferli sem saksóknari að hún taki ofbeldismenn engum vettlingatökum og að hún hafi gert götur Flórída hættuminni fyrir venjulegar fjölskyldur.

Þótt Bondi sé ekki eins umdeild og Matt Gaetz, sem var fyrsta val Trumps í þetta mikilvæga embætti, er hún þó harður stuðningsmaður forsetans og hefur margsinnis haldið því fram að kosningunum 2020 hafi verið stolið og að víðtæku kosningasvindli hafi verið beitt þegar Trump tapaði fyrir Joe Biden. Ekkert bendir til þess að nokkuð sé hæft í slíkum ásökunum.

Gaetz ætlar sér ekki að verða dóms­málaráðherra Siðanefndin klofin í máli Gaetz en gögn farin að leka Segist ætla að siga hernum á farand- og flóttafólk 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×