Innlent

„Ekki ró­legur með hraunið ofan á“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Tómas Már Sigurðsson er forstjóri HS Orku.
Tómas Már Sigurðsson er forstjóri HS Orku. Vísir/Egill Aðalsteinsson

Rafmagni var komið aftur á í Grindavík í morgun eftir að hafa dottið út þegar Svartsengislína fór í sundur. Hraun rennur yfir Njarðvíkuræð en forstjóri HS Orku bindur miklar vonir við að varnir haldi.

„Við erum búin að gera ráð fyrir þessu í okkar áætlunum. Það er búið að sökkva lögninni og fergja hana og við erum að framleiða heitt varn eins og við eigum að gera og kalt vatn rennur þarna undir í annarri lögn. Í raun og veru gengur þetta allt samkvæmt áætlun þótt vissulega sé maður ekkert rólegur með hraunið þarna ofan á,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.

Njarðvíkuræð fór síðast undir hraun í febrúar með þeim afleiðingum að Suðurnesin voru heitavatnslaus í nokkra daga. Tómas segir stöðuna allt aðra núna. Þá hafi þau verið í miðjum framkvæmdum og æðin óvarin að hluta.

Njarðvíkuræðin er nú undir hrauni en forstjóri HS Orku segir mannvirki þeirra ekki í hættu eins og sakir standa að minnsta kosti.vísir/Vilhelm

Svartsengislína Landsnets sem tengist orkuverinu í Svartsengi er hins vegar rofin vegna hraunflæðis. Það olli rafmagnstruflun á öllum Suðurnesjum og rafmangslaust varð í Grindavík. Rafmagni var komið aftur á um klukkan ellefu og varaaflsstöðvar keyra heitaframleiðslu nú áfram. Tómas vonar að íbúar verði ekki fyrir miklum áhrifum.

„Við vonum að við getum haldið áfram að afhenda heitt með varaflsstöðvunum okkar og vonum að kaldavatnsfæðingin gangi vel eins og hingað til. Í sjálfu sér eigum við ekki von á öðru en þetta eru auðvitað náttúruhamfarir og maður getur ekki fullyrt nokkuð,“ segir Tómas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×