Innlent

Tæp tíu þúsund hafa kosið utan kjör­fundar

Lovísa Arnardóttir og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Sigríður Kristinsdóttir segir kjörsókn ekki jafn góða utan kjörfundar og í kosningunum 2021.
Sigríður Kristinsdóttir segir kjörsókn ekki jafn góða utan kjörfundar og í kosningunum 2021. Vísir/Sigurjón

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefur staðið yfir í um tvær vikur. Lillý Valgerður Pétursdóttir fréttamaður heimsótti Holtagarða í kvöldfréttunum en þar er utankjörfundaratkvæðagreiðsla haldin fyrir höfuðborgarsvæðið. 

Á staðnum eru 32 kjörklefar og inni í kjörklefanum fær fólk stimpil í stað þess að haka við það framboð sem það ætlar að kjósa.

Allir sem búa í umdæmi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu greiða atkvæði í Holtagörðum ef þau ætla að kjósa utan kjörfundar. Komi fólk til að kjósa sem býr utan umdæmis sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu verður það að koma sínu atkvæði sjálft í rétta kjördeild.

Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, segir að síðustu tvær vikur hafi um 5.850 kosið í Holtagörðum en 9.940 kosið á öllum utankjörfundarkjörstöðum.

Kjörkassarnir eru átta í Holtagörðunum.Vísir/Sigurjón

Hún segir þetta í takti við áætlanir þeirra en á sama tíma í síðustu kosningum, í september 2021, hafi um tólf þúsund verið búin að greiða atkvæði.

„Þá var Covid og það kusu fleiri utan kjörfundar en á kjördag.“

Opið er í Holtagörðum alla daga frá 10 til 22 til 29. nóvember. Á kjördag er svo opið frá 9 til 17. Kosningarnar fara fram þann 30. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×