Alþingi samþykkti á mánudag lagabreytingu sem tryggði grundvöll fyrir fjármögnun nýrrar brúar og vegtenginga. Gert er ráð fyrir að umferð verði hleypt á nýju brúna haustið 2028.
Áætlaður heildarkostnaður við verkið eru 17,9 milljarðar króna á verðlagi ársins 2024.

Framkvæmdirnar eru hluti af verkefninu Hringvegur um Ölfusá sem felst í að færa Hringveginn út fyrir þéttbýlið á Selfossi. Byggð verður 330 metra löng brú, nýr 3,7 kílómetrar vegarkafli auk um 1 kílómetra af öðrum tveggja akreina vegum.
Sjá einnig: Fyrsta skóflustunga að Ölfusárbrú á miðvikudag
Gerð verða ný vegamót austan Selfoss, undirgöng undir Hringveg fyrir gangandi, hjólandi og hestamenn ásamt undirgöngum fyrir bíla og gangandi. Auk umferðar mun brúin bera uppi lagnir veituaðila, rafmagn, ljósleiðara, heitt vatn og kalt.
