Skoðun

Um­breyting á einni nóttu – Þegar ör­yrki verður að elli­líf­eyris­þega

Guðmundur Ingi Kristinsson skrifar

Almannatryggingakerfið okkar, sem varðar framfærslu þeirra sem reyna að lifa af á örorku- og ellilífeyri, er eitthvað flóknasta og bútasaumaðasta kerfi sem fyrirfinnst í þessu landi. Þá eru fjölmargir angar þess hver öðrum furðulegri og maður stendur stundum á gati þegar maður rýnir í lögin og sér hvernig þau raunverulega virka, eða þá virka ekki fyrir þá verst settu.

Þannig er það til dæmis með aldursviðbótina, sem áður hét „aldurstengd örorkuuppbót“. Um er að ræða greiðsluflokk sem hefur það markmið að jafna stöðu öryrkja sem verða snemma á æviskeiðinu óvinnufærir og geta þ.a.l. ekki aflað ýmissa réttinda sem launafólk getur aflað. Það eru því mikil sanngirnis- og réttlætisrök fyrir aldursviðbótinni. En svo komum við að því sem undarlegt er: þegar öryrkinn verður 67 ára þá lítur löggjafinn á það sem svo að hann læknist á einni nóttu og við það breytist hann í eldri borgara, sem nýtur annarskonar réttinda og lækkar í lífeyrislaunum um jafnvel tugþúsunda króna. Við þetta tímamark fellur aldursviðbótin niður, með tilheyrandi tekjuskerðingum fyrir fólkið í þessu bútasaumaða fjárhagslega ofbeldiskerfi.

Ég segi fyrir mitt leyti að ef eitthvað er ættu öryrkjar að fá meiri réttindi eftir því sem þeir verða eldri, vegna þess að einstaklingur sem hefur verið fjárhagslega sveltur jafnvel allt sitt líf í þessu kerfi og verið metinn 75% öryrki við 18 ára aldur, getur á engan hátt verið betur staddur þegar hann verður 67 ára. Ég tala nú ekki um ef viðkomandi einstaklingur er lamaður og fær ekki NPA-þjónustu og er vistaður á hjúkrunarheimili áður en hann verður 67. Þá er allt tekið af honum og vasapeningum hent í hann.

Við í Flokki fólksins viljum gera breytingu á þessu keðjuverkandi skerðingarkerfi og setja það í lög að aldursviðbót öryrkja haldist ævilangt og þá einnig ekkert vasapeningafyrirkomulag, heldur ættu þeir halda þeir sinu fjárhagslega sjálfstæði.

Höfundur er varaformaður Flokks fólksins og oddviti í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×