Innlent

Frost en þurrt þegar bílarnir skullu saman

Jón Þór Stefánsson skrifar
Áreksturinn varð á Biskupstungnabraut, skammt frá Þrastalundi.
Áreksturinn varð á Biskupstungnabraut, skammt frá Þrastalundi. Vísir/Vilhelm

Bílar sem lentu í árekstri í gærkvöldi á Biskupstungnabraut skammt frá Þrastalundi skullu saman úr gagnstæðri átt.

Þorsteinn Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segist ekki vita hver tildrögin voru að svo stöddu en það sé til rannsóknar.

Aðspurður um aðstæður á vettvangi og hvort líkur séu á því að veður hafi spilað inn í segir Þorsteinn:

„Veður var bara mjög gott í gær. Það var ekkert svoleiðis.“

Hann segir að það hafi verið frost en þurrt veður, en getur ekki sagt til um hvort eða hversu mikil hálka hafi verið á vettvangi. Það sé á meðal þess sem verði rannsakað.

Greint var frá því í gær að sex hafi lent í slysinu. Þrír hafi verið fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann, en hinir þrír fluttir með sjúkrabílum á heilbrigðisstofnanir.

Þorsteinn segist ekki vita um ástand þeirra sem lentu í slysinu og vísaði á Landspítalann. Andri Ólafsson, upplýsingafulltrúi Landspítalans, sagði sjúkrahúsið ekki veita upplýsingar um líðan einstaka sjúklinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×