Skoðun

Kvíðakynslóðin

Daðey Albertsdóttir og Silja Björk Egilsdóttir skrifa

Fjórar tillögur að breyttum viðhorfum varðandi snjallsímaeign og samfélagsmiðlanotkun barna.

Rísandi áhyggjur af hrakandi geðheilsu barna og ungmenna hér á landi og hjá nágrannaþjóðum okkar síðustu ár kalla á samræmdar aðgerðir, breytt viðhorf og nýja nálgun. Biðlistar eftir greiningum og sálfræðiaðstoð lengjast og margir foreldrar upplifa úrræðaleysi fyrir börn í vanda.

Samhliða vitundarvakningu um geðheilsu síðastliðin tvö ár hér á landi hefur töluverð umræða skapast varðandi skjátíma barna, þá sérstaklega með tilliti til notkun snjallsíma og samfélagsmiðla. Samhliða innreið samfélagsmiðla og snjalltækja inn í líf okkar sjáum við neikvæðar niðurstöður rannsókna á líðan barna og ungmenna m.a. á einkenni þunglyndis, kvíða og svefnvanda.

Hvað er hægt að gera?

Í nýútkominni bók sem nefnist The Anxious Generation: How the Great Rewiring of Childhood is Causing an Epidemic of Mental Illness fer félagssálfræðingurinn Jonathan Haidt yfir breytingar á því umhverfi sem börn alast upp við, annars vegar vegna minni tíma sem þau hafa fyrir frjálsan leik og hins vegar vegna tilkomu snjallsíma og samfélagsmiðla. Hann leggur til, út frá rannsóknum, fjögur ný viðmið sem samfélög þurfi að tileinka sér til að bæta umhverfi barna:

  1. Enga snjallsíma fyrir unglingadeild (14 ára)
  2. Enga samfélagsmiðla fyrir 16 ára
  3. Símalausa skóla
  4. Meiri frjálsan leik og ábyrgð í raunheimum

En hvernig rímar þetta við reynslu og þekkingu höfunda þessarar greinar á sálrænni meðferð og greiningum barna og ungmenna annars vegar og skjátímafræðslu hins vegar? Förum yfir þessa fjóra punkta.

Engir snjallsímar fyrir unglingadeild

Á fyrstu árum lífsins fer heili barna í gegnum gífurlega miklar breytingar og grunnstoðir heilans sem allt frekara nám byggir á verða til. Á unglingsárunum fer heilinn svo aftur í gegnum miklar breytingar þar sem taugatengingar sem mikið eru notaðar styrkjast og aðrar visna. Á þessum árum skiptir því miklu máli að heilinn fái svigrúm til að þroskast eins og best verður á kosið án þess að vera með stöðugt áreiti og ýkta örvun frá tækjum. Í símanum er að finna ógrynni af afþreyingu og skemmtun. Þegar barn hefur ótakmarkað aðgengi að þessari freistingu er líklegra að það leiti í símann og missi af upplifunum sem þau þurfa til að öðlast mikilvæga færni og þroska. Það er auðvelt að koma sér frá því að gera óþægilega hluti ef alltaf er hægt að fela sig á bakvið skjáinn, líkt og að halda uppi samræðum við einhvern sem þú þekkir lítið, spyrja til vegar eða hvað klukkan sé. Þannig missa börnin þá af því að læra nauðsynlega færni því þau eru ekki sett í þær aðstæður að þurfa að tala við ókunnuga eða redda sér sjálf. Þar að auki sjáum við að snjallsímarnir geta haft slæm áhrif á svefn, og valda bæði því að börn fara of seint að sofa vegna símanna og fara í símann ef þau vakna á næturnar.

Engir samfélagsmiðlar fyrir 16 ára

Á samfélagsmiðlum getur hver sem er sett nánast hvaða efni sem er inn. Vissulega eru ákveðnar reglur á miðlunum um efni sem er ekki leyft og má þar nefna t.d. ofbeldi eða kynlíf. Vernd barna gegn skaðlegu efni snýst um meira en bara blóð og nekt í bíómyndum, þáttum og tölvuleikjum. Það þarf einnig að horfa til þess hvaða áhrif efnið getur haft á hegðun. Aldurstakmörk samfélagsmiðla (sem eru nú í flestum tilfellum 13 ára) eru ekki sett fram til að vernda börn gegn skaðlegu efni heldur er sá aldur valinn því að ekki er leyfilegt að safna persónupplýsingum um yngri börn. 13 ára erum við þó ekki orðin fullorðin þótt samfélagsmiðlarnir kjósi að líta þannig á, því það þjónar þeirra hagsmunum. Einmitt á þeim aldri eiga börnin oft erfitt með að ákveða hver þeirra eigin skoðun er og eru áhættusækinn þá sérstaklega ef jafnaldrar telja hana „eðlilega“ hegðun. Setjum það í samhengi við áskoranir á samfélagsmiðlum eins og t.d. að þrengja að öndunarvegi eða skvetta stíflueyði í andlit annarra barna. Ný trend koma inn á sjónarsviðið og nýir sjarmerandi áhrifavaldar, raunverulegir og óraunverulegir (búnir til af gervigreind), stíga fram sem vita allt best og hafa öll svörin. Þetta má t.d. sjá með því að ungar stúlkur telja sig þurfa að nota húðvörur sem eru jafnvel skaðlegar húð þeirra, því það eru skilaboðin frá áhrifavöldum sem þær fylgja. Í tilfelli drengja sjáum við hinsvegar að skilaboðin eru oftar að skjótfengum gróða og veðmál.

Það efni sem börnin sjá hefur áhrif á þau. Sérstaklega ef þau heyra ekki hina hliðina eða ræða við fullorðna sem spyrja gagnrýnna spurninga eða leiðrétta misskilning. Það reynist okkur fullorðna fólkinu erfitt að taka við þessum hafsjó af upplýsingum sem eru á samfélagsmiðlum. Þó höfum við fullþroskaðan heila og langa reynslu af samskiptum sem gerir okkur kleift að melta þessar upplýsingar og taka svo upplýsta ákvörðun um hvað passar við okkar gildi og heimsmynd og svo hunsum við annað. En börn taka hins vegar oft því sem þau sjá á netinu sem heilögum sannleik því þau eru enn að móta sína sjálfsmynd og ekki búin að ná fullum tökum á gagnrýnni hugsun.

Símalausir skólar?

Á Íslandi er það í höndum hvers skóla að búa til reglur um símanotkun. Í mörgum skólum hefur verið farin sú leið að búa til símasáttmála eða tala um símafrí í stað þess að tala um símabann. Margir skólar eru hins vegar orðnir símalausir, eitthvað sem foreldrafélög eða skólayfirvöld voru jafnvel búin að vinna að í lengri tíma og hafa kennarar talað um jákvæðar breytingar á skólastarfinu í kjölfarið þó það sé ekki laust við hnökra. Þegar gengið er um unglingadeildir í ákveðnum skólum má heyra í þögninni þó gangarnir séu fullir því þar sitja börnin meðfram veggjum, í sófum og gluggakistum hver og einn í sínum síma, ekki að halda uppi samræðum eða tengjast í raunheimum heldur horfa á skjáinn og skrolla. Þar eru þau að fara á mis við nauðsynlegt nám í samskiptum. Börnin okkar eiga rétt á að fara í gegnum skóladaginn án þess að vera með þetta áreiti alltaf í vasanum.

Mikilvægt er þó að halda því til haga að samtalið um skjánotkun byrjar heima og ætti að vera samvinna milli heimilis og skóla því nauðsynlegt að reglur um skjánotkun séu á báðum stöðum.

Mikilvægi leiksins

Frítími barna hefur farið minnkandi síðustu áratugina og er hann í sögulegu lágmarki núna. En það er nauðsynlegt fyrir þroska barna að hafa tíma til að leika sér. Í gegnum leikinn læra þau félagsfærni, lenda í ósætti, leysa ágreining og virkja þessa óendanlegu uppsprettu ímyndunarafls sem þau hafa. Þau hafa gott af því að fara út og lenda í ævintýrum og vandræðum sem þau þurfa sjálf að leysa – það eflir þrautseigju og trú þeirra á sjálfum sér. Ef barn er með símatækið á sér öllum stundum getur það haft áhrif á leikinn. Það er erfitt að keppa við allt afþreyingarefnið sem er í vasanum þeirra og getur jafnvel látið daglegar athafnir virka minna spennandi í samanburði.

Um reglur ráðherra

Um daginn var fest í lög að börn undir 13 ára aldri mættu ekki keyra um á rafhlaupahjólum. Í dag fá börn bílpróf við 17 ára aldur. Það var ekki tilviljun sem réð því að sá aldur var valinn. Sú ákvörðun var tekin því að við þann aldur er talið að ungmennið, með réttri þjálfun, hafi öðlast þá færni og þroska sem þarf til að stýra ökutæki. Við vitum að níu ára gamalt barn yrði sjálfu sér og öðrum hættulegt ef það myndi setjast undir stýri. Enginn efast um þetta. En þó við þekkjum af eigin raun og úr rannsóknum afleiðingar mikillar skjánotkunar á geðheilsu barna er enn ekki byrjað að ræða af alvöru hvernig við sem samfélag þurfum að bregðast við. Í löndum líkt og Noregi, Írlandi og Ástralíu er byrjað að ræða að festa í lög hækkun á aldurstakmörkunum á samfélagsmiðlum og telja höfundar þessarar greinar mikilvægt að slíkt samtal eigi sér einnig stað hér á landi.

Samstaðan skiptir höfuðmáli

Það væri einföldun að kenna eingöngu snjallsímum og samfélagsmiðlum um hrakandi geðheilsu barna því þar eru fleiri þættir sem spila einnig hlutverk. En ljóst er þó að of mikill skjátími og of lítil samvera í raunheimum gegnir þar veigamiklu hlutverki.

Auðvitað er það svo að við getum ekki haldið öllu því óæskilega sem til er í heiminum frá börnunum að eilífu. Auk þess er margt jákvætt sem getur komið frá snjalltækjunum okkar og samfélagsmiðlum ef við notum þá rétt og í okkar þágu. Það er sagt að við séum að ofvernda börnin okkar í raunheimum en á sama tíma að bregðast því að vernda þau í netheimum. Þau hafa aðgengi að miklu óæskilegu efni og oft er yfirsýnin lítil eða jafnvel engin. Það er ljóst að við þurfum að endurhugsa snjallsíma- og samfélagsmiðlanotkun barna. Við fullorðna fólkið þurfum standa saman og hjálpast að við að halda snjallsímum og samfélagsmiðlum frá börnum þar til þau hafa öðlast þroska og færni til að takast á við þetta. Þá getum við kennt þeim í skrefum ábyrga og gagnrýna notkun.

Daðey Albertsdóttir er sálfræðingur á Geðheilsumiðstöð barna - HH og Domus Mentis Geðheilsustöð.

Silja Björk Egilsdóttir er sálfræðingur á Geðheilsumiðstöð barna - HH og Seiglu sálfræði- og ráðgjafastofu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×